Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Fólksflutningar frá Íslandi

17.06.2010 - 18:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Þeir sem fluttu burt af landinu fyrstu fimm mánuði ársins, voru jafnmargir og allir íbúar Grindavíkur. Á þessu tímabili fluttu sjö frá landinu á móti hverjum tveimur sem fluttu til landsins. Hve margir eru 2.798 manns? Þetta er sá fjöldi sem flutti af landinu fyrstu fimm mánuði ársins, samkvæmt tölum Creditinfo, sem birtar voru á dögunum. Þetta eru um 965 meðalfjölskyldur, en - mælt á annan mælikvarða. Þetta eru nánast jafnmargir og allir íbúar Grindavíkur. Að meðaltali fluttu á brott 560 manns á mánuði þetta tímabil. Það eru nánast jafn margir og búa á Eyrarbakka. Með sama áframhaldi flytja ríflega 6.700 manns af landinu á þessu ári. Það eru jafn margir og búa í Hveragerði og Þorlákshöfn, auk Grindavíkur.

Á móti kemur að 803 fluttu til landsins fyrstu fimm mánuði ársins, það eru jafn margir og helmingur íbúanna í Þorlákshöfn.

Það er vissulega ónákvæmt að jafna brottfluttum við íbúa tiltekinna sveitarfélaga eða byggðarlaga. Í rauninni býr þar fólk af öllu tagi á öllum aldri, en - yfirgnæfandi meirihluti brottfluttra er undir miðjum aldri, það er fólk undir fertugu, oft með börn á framfæri.

Hlutfallið, eins og það hefur verið það sem af er ári, er að tveir flytja til landsins á móti hverjum sjö sem flytja á brott. Þannig verða brottfluttir umfram aðflutta á öllu árinu 4.800, eða 1.655 fjölskyldur. Þetta eru ámóta margir og nú búa á Álftanesi, í Vogum, Höfnum. á Stokkseyri, Flúðum og Laugarvatni.

Það skal tekið fram að hér er ekki fjallað um fjölgun eða fækkun þjóðarinnar, hvorki fæðingartölur né dánartölur eru hér með, aðeins sú fækkun sem verður vegna brottflutnings af landinu.