Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Fólksflótti frá Íslandi

14.06.2012 - 17:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Ísland er meðal Evrópuþjóða á lista þar sem fólksflótti var mestur í fyrra. 1,3 prósent Íslendinga fluttu af landi brott í fyrra.

Þetta kom fram í þætti á þýsk/frönsku sjónvarpsstöðinni Arte þar sem fjallað var um fólksflutninga í Evrópu árið 2011. Kastljósinu var beint að löndum þar sem fólksflótti var eitt prósent eða meiri. Hlutfallslega flestir fluttu frá Írlandi (1,6%), Litháen (1,5%), Íslandi og Grikklandi (1,3%), Spáni og Portúgal (1%). Miðað var við þá sem eru með þarlendan og erlendan ríkisborgararétt.

Í tölum Hagstofunnar kemur fram að 10 fleiri fluttu frá Íslandi á fyrsta ársfjórðungi 2011 en í ár, eða 1.230. Þó vekur athygli að töluvert fleiri erlendir ríkisborgarar hafa flutt frá landinu á þessum fyrsta ársfjórðungi en í fyrra. Brottfluttum Íslendingum fækkar á sama tímabili.

Þóra Ágústsdóttir, verkefnastjóri evrópsku vinnumiðlunarinnar hjá Vinnumálastofnun, segir litlar sem engar breytingar hafa orðið í ásókn í störf erlendis undanfarin tvö ár, eftir holskeflu í kjölfar fjármálahrunsins. Hvorki áberandi fleiri né færri hafi leitað til þeirra í ár en í fyrra.