Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fólksfjölgun kallar á fleiri íbúðir

Hofskirkja í Vopnafirði.
 Mynd: Þjóðkirkjan
Fjölgun íbúðarhúsnæðis og fjölbreytni í atvinnulífi er í forgrunni í Vopnafjarðarhreppi fyrir komandi kosningar. Samgöngumál eru einnig ofarlega í hugum margra. Sveitarstjórinn segist finna fyrir auknum áhuga íbúa á kosningunum en þrír listar eru í í framboði í sveitarfélaginu, sem telur um 655 manns.

Þrír listar bjóða fram

Listarnir þrír sem bjóða fram eru B-listi Framsóknar og óháðra sem Sigríður Bragadóttir leiðir, Ð-listi Betra Sigtúns með Stefán Grím Rafnsson í fyrsta sæti og S-listi Samfylkingarinnar sem Bjartur Aðalbjörnsson leiðir. Ólafur Áki Ragnarsson var ráðinn sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna 2014. Hann segir húsnæðis- og atvinnumálin í forgrunni. Húsnæðisskortur sé í Vopnafjarðarhreppi eins og víðar á landsbyggðinni.

Krafa um fjölbreytni í atvinnumálum

Fólksfjölgun hefur orðið í Vopnafjarðarhreppi en starfstöð HB Granda á svæðinu er driffjöður í atvinnustarfsemi á staðnum og hefur laðað að fleira fólk. Ólafur segist þó finna fyrir kröfu um meiri fjölbreytni í atvinnumálum. Börnum á leikskólanum hefur fjölgað um meira en helming síðustu 12 mánuði.
Áframhaldandandi stefna sveitarfélagsins er að fjölga barnafjölskyldum á svæðinu en á sama tíma þarf að fjölga íbúðum. 

Vilja nýja vegi

Samgöngumál eru íbúunum einnig mikilvæg en Ólafur segir það kröfu íbúa að tryggja samgöngur við næstu byggðakjarna. Í brennidepli hafa verið nýjir vegir á milli Þórshafnar og Vopnafjarðar annars vegar, og Fljótsdalshéraðs og Vopnafjarðar hins vegar. Ólafur segir að almennt þurfi að bæta almenningssamgöngur svo að landsbyggðin vaxi og dafni og Vopnafjarðarhreppur sé engin undantekning frá því. 

Halda áfram jákvæðum rekstri

Hann segir sveitarfélagið hafa skilað góðu búi, um 100 milljóna króna hagnaði og góðri skuldastöðu. Ólafur telur að helsta áskorun þeirra sem taki við í sveitarstjórn verði því áframhaldandi uppbygging bæjarins og fjölgun íbúðarhúsnæðis í takt við fólksfjölgun. 

Ljósleiðaravæðing er einnig í fullum gangi í Vopnafjarðarhreppi og verður eitt af þeim verkefnum sem tilvonandi sveitarstjórn mun taka við og klára. Ólafur segist sjálfur ekki ætla að sækjast eftir stöðu sveitarstjóra áfram en bindur vonir við áframhaldandi jákvæðan rekstur og fólksfjölgun í sveitarfélaginu.

 

evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður