Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Fólksfjölgun eyðir ekki byggðavanda

Mynd með færslu
 Mynd:
Mesta fólksfjölgun á landinu síðastliðna tólf mánuði var á Vestfjörðum. Albertína F. Elíasdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga segir að þó þetta séu ánægjuleg tíðindi hafi byggðaþróuninni ekki verið snúið við.

Viðvarandi fólksfækkun hefur verið á Vestfjörðum á síðustu árum og frá því um 1980 hefur þróunin verið nær stöðugt niður á við. Nú bregður svo við að íbúum í fjórðungnum fjölgar milli ára. Samkvæmt tölum Hagstofunnar var fólksfjölgun á Vestfjörðum síðastliðið ár sú mesta á landinu, eða 1,1 prósent. Það er örlítið meiri fjölgun en á höfuðborgarsvæðinu.

„Ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki hvernig ég ætti að bregðast við þessu fyrst, við erum búin að sjá svo lengi neikvæðar tölur. En eftir smá umhugsun eru þetta bara virkilega góðar fréttir,“ segir Albertína og segir að helsta skýringin liggi í ýmsum atvinnu- og menningarverkefnum sem ráðist hafi verið í undanfarin misseri. „Til dæmis bara hér á Ísafirði erum við með 3X stál sem hefur verið að gera góða samninga, einnig Keresis, líftæknifyrirtækið. Svo náttúrulega er uppbygging fiskeldisins á Suðurfjörðunum og margt spennandi bæði á Reyhólum og Ströndum.“

Ef þróunin er skoðuð í nokkrum byggðakjörnum má sjá allt upp í 9,9 prósenta fjölgun á Reykhólum, 6,6 prósent á Tálknafirði og 3,2 prósent í Bolungarvík. En það er líka fækkun og þar sker Flateyri sig úr, þar fækkar íbúum um 7 prósent og á Drangsnesi er fækkunin 4,2 prósent. Albertína segir byggðavandann enn til staðar þó Vestfirðingum fjölgi nú á milli ára. „Ég held að þetta sé bara fyrsta skrefið af gríðarlega mörgum sem við þurfum að stíga, bæði sveitarfélögin, íbúar og aðrir landsmenn í takt, til að byggja hér upp.“