Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fólk vinni þar sem það vill

30.06.2014 - 17:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Ríkið á að leyfa starfsfólki sínu að vinna þar á landinu sem það vill búa. Þetta segir brautarstjóri sjávarútvegsbrautar Háskólans á Akureyri. Hann segir ekki rétt að fjölga opinberum störfum með því að flytja stofnanir í heilu lagi milli landshluta.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að mikilvægt sé að stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum um land allt, meðal annars með dreifingu opinberra starfa.

Ákvörðun Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar, er einmitt rökstudd með það í huga, að fjölga opinberum störfum fyrir norðan. Þegar opinberar stofnanir hafa verið fluttar út á land, hafa sárafáir starfsmenn flutt með. Þar með skapast hætta á að fagleg starfsemi veikist, um einhvern tíma að minnsta kosti.

Hreiðar Þór Valtýsson, brautarstjóri sjávarútvegsbrautar Háskólans á Akureyri, tekur undir þetta sjónarmið. „Ég held að stofnunin veikist tímabundið, hérna á Akureyri er til nóg af menntuðu fólki til að byggja upp stofnunina til lengri tíma, þannig að stofnunin gæti eflaust orðið öflug hérna.“

Hreiðar bendir á aðra færa leið til að fjölga opinberum störfum utan höfuðborgarsvæðisins. „Okkur hefur fundist það miður, hversu erfiðlega gengur að fjölga opinberum störfum hérna. Mér hugnast ekki að taka stofnanir í heilu lagi og flytja á milli landshluta. Ég bendi ríkisvaldinu á þá leið að leyfa starfsfólki sínu að vinna þar á landinu sem það vill búa. Í því hljóta að felast lífsgæðin, að menn þurfi ekki að vinna hér eða þar. Það er fullt af fólki á landsbyggðinni, sem þarf að vinna í Reykjavík, en vildi gjarnan flytja eitthvað annað. Það dreymir ekki alla um að flytja suður.“