Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Fólk var bara skjálfandi af hræðslu“

11.08.2015 - 15:57
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook Extreme chill festival
Forsvarsmenn tónlistarhátíðarinnar Extreme chill festival segja að lögreglan hafi farið offari og haldið hátíðinni í heljargreipum. Lögregla segir að enn hafi ekki borist formleg kvörtun til embættisins vegna aðgerðanna, en ef slíkt erindi berist verði það skoðað alvarlega.

Um 200 gestir sóttu hátíðina en þar komu upp 29 fíkniefnamál um helgina. Pan Thorarensen var einn af þeim sem sáu um hátíðina, en hann segir að lögreglan hafi verið mjög ágeng og gengið alltof langt.

Hann segir að forsvarsmenn hátíðarinnar hafi þegar sett sig í samband við lögfræðing til að kanna rétt sinn.

„Fólk er í áfalli. Á tónleikasvæðinu hjá okkur var fólk að koma til okkar rétt fyrir tónleika klukkan átta um kvöldið bara skjálfandi af hræðslu,“ segir Pan.

„Þeir fara inn á tjaldsvæðin meðan að fólk er á tónleikum á hátíðinni, þá eru þeir á tjaldsvæðinu að fara inn í tjöld hjá fólki, leita í tjöldum. Sem er náttúrlega algjörlega ólöglegt,“ segir hann. „Þeir taka bílana af mörgum. Og svo taka þeir stelpu bara úti á miðri götu og færa hana úr fötunum til að leita.“

Erfitt að svara sundurlausum ásökunum
Theódór Þórðarson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Vesturlandi, segir að það sé erfitt að svara sundurlausum ásökunum í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum, en ef formleg kvörtun berist til embættisins verði hún tekin alvarlega.

Hann bendir þó á að miðað við hvað hátíðin var lítil hafi yfirgengilega mörg fíkniefnamál komið upp og ef lögreglan fari á annað borð í aðgerðir til að uppræta þau þá sé óumflýjanlegt að mæta með fíkniefnahunda og stöðva bíla og leita á fólki.

„Það verður að leita með höndunum. Og það verður auðvitað að leita þar sem hundurinn vill fara. Þannig vinna þessir hundar, þeir merkja við þá staði þar sem lyktin er sterkust," segir hann.

Gætum sleppt því að halda hátíðir
Pan telur þrátt fyrir það að lögreglan hafi gengið of langt.

„Þessi efni sem eru að finnast. Þetta er bara allt ætlað til einkanota. Eins og einn sagði: þetta er bara eins og hver annar listaviðburður á landinu. Og ef við ætlum að taka svona á málunum þá getum við alveg eins bara sleppt því að vera með tónleikahald eða hátíðir,“ segir hann.

 

 

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV