Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

"Fólk treystir ekki stjórnmálamönnum“

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
„Fólk treystir ekki stjórnmálamönnum" segir Katrín Jakobsdóttir í viðtali við breska blaðið The Guardian og segir brýnt að breyta því. Þá segir hún marga á vinstri vængnum enn vera henni reiða fyrir að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, þeim tveimur flokkum, sem flæktastir eru í hneykslismálin sem felldu tvær síðustu ríkisstjórnir, eins og segir í frétt blaðsins. Katrín er engu að síður sannfærð um að það hafi verið rétt ákvörðun að ganga til samstarfs við þessa flokka.

 „Mikið hefur gengið á í íslenskum stjórnmálum, og fólk treystir í raun ekki íslenskum stjórnmálamönnum," segir Katrín og segist hafa á því fullan skilning. .„Ég lái þeim það ekki. En nú þurfum við að finna út úr því hvernig við getum byggt upp traust í stjórnmálunum á nýjan leik."

Í frétt The Guardian er rifjað upp, að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi verið flæktur í fleiri en eitt og fleiri en tvö hneykslismál og meðmælabréf föður hans um uppreist æru dæmds barnaníðings nefnt í því sambandi, sem og sala Bjarna á eignum sínum í Sjóði níu á síðustu dögum fyrir hrun og aflandseyjafélag hans í Panamaskjölunum. Þá er Wintris-málið og aðdragandi afsagnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og falls ríkisstjórnar hans rifjað upp.

Katrín segir samstarfið við Bjarna og arftaka Sigmundar Davíðs í formannsstóli Framsóknar, Sigurð Inga Jóhannsson, ganga mjög vel. Fjármálahneykslin megi rekja aftur fyrir hrun, til tíma þegar „fáar siðareglur voru í gildi fyrir stjórnmálamenn og engar reglur um hagsmunaskráningu.“ Segir hún það vissulega hafa verið furðulegt ráðslag, en sú sé ekki lengur raunin.

Katrín segir raunsæissjónarmið hafa ráðið meiru um ákvörðun hennar en siðferðisleg sjónarmið. „Við eru stödd hér núna, við þurfum að breyta kerfinu, svo við þurfum að fá alla að borðinu," var það sem réði för, frekar en „Ég ætla ekki að vinna með þér vegna þess að þú gerðir hluti sem mér finnst siðferðislega rangir.“ 

Katrín segir loftslagsmál, jafnréttismál og baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og misrétti ofarlega á forgangslista hennar og ríkisstjórnarinnar. Þá er hún þess fullviss að stjórnmál 21. aldarinnar muni áfram snúast mikið um hægri/vinstri-ásinn. „Þetta snýst um fólk sem getur varla lifað af launum sínum, réttindi fólks ... Hvernig farið er með fólk. Þörfin fyrir jöfnuð hefur aldrei verið meiri. Hvernig við náum honum skiptir ekki máli,“ segir Katrín að lokum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV