Fólk skammast sín fyrir að örmagnast

Mynd: - - / Creative Commons Creative Common
Hugtakið örmögnun lýsir ástandi sem getur komið til vegna langvarandi streitu og í kjölfar áfalla. Eygló Guðmundsdóttir, doktor í heilbrigðisvísindum, hefur rannsakað örmögnun og segir brýnt að opna umræðuna hér á landi. Það fylgi því enn mikil skömm að örmagnast en það geti hent okkur öll.

Örmögnun er að mörgu leyti áþekk hugtakinu kulnun, sem töluvert hefur verið í umræðunni að undanförnu. Með kulnun er átt við að fólk brenni út í starfi en með örmögnun er átt við að fólk brenni út í lífinu. Enska heitið yfir örmögnun er vital exhaustion. Fólk sem örmagnist geti þó oft notið sín í starfi, að sögn Eyglóar. Rætt var við hana ní Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

„Einkennin eru mörg þau sömu en það sem er að baki örmögnun er oft löng og þung áfallasaga. En svo þarf þó ekki alltaf að vera.“ Eygló rannsakaði líðan foreldra krabbameinssjúkra barna og sýndu niðurstöður að 9,7 árum eftir að meðferð barnanna lauk voru mæligildi á líðan orðin þau sömu og hjá foreldrum heilbrigðra barna.

Fólk vaknar og getur ekki hreyft sig

Flest fólk sem örmagnast í lífinu endar svo á því að kulna í starfi, að sögn Eyglóar. Hún starfar hjá Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og segir að algengasta ástæða þess að fólk leiti sér hjálpar vegna örmögnunar sé að líkaminn gefi sig. „Það eru dæmi um að fólk vakni einn daginn og geti ekki hreyft sig. Það er með gríðarlega verki sem eru búnir að vera í tugi ára, það veldur að sjálfsögðu depurð og þyngslum.“ Þá segir hún að svefntruflanir séu mjög algengar hjá fólki sem hefur örmagnast og að það sé hættulegt. Brýnast af öllu sé að koma svefninum í samt horf þar sem hann sé undirstaða góðrar heilsu. 

Ástand sem er viðurkennt í Svíþjóð

Fólk sem hefur örmagnast er oft greint þunglynt, að sögn Eyglóar. Hún bendir á að fólk fái eðlilega þunglyndi og lífsleiða þegar það örmagnist vegna álags og áfalla í lífinu. „Þetta er misskilið hugtak og svo óþekkt hér á landi. Í Svíþjóð og Danmörku hefur þetta verið þekkt í tugi ára.“ Eygló segir að í Svíþjóð sé ástandið örmögnun viðurkennt og fólk fái leyfi frá störfum og aðstoð lendi það í þessari aðstöðu. Hér á landi sé allt of mikil skömm sem fylgi því að örmagnast. „Fólkið sem ég er að hitta, það er í gríðarlegri skömm af því að upplifunin er að þetta sé andskotans aumingjaskapur í því.“

Skapsveiflur og minnisleysi fylgja örmögnun

Eygló leggur áherslu á það í fyrirlestrum sínum að það geti komið fyrir alla að örmagnast. Þær hugmyndir sem fólk hafi um örmögnun skemmi mikið fyrir og það vanti sárlega skilning. Þá segir Eygló brýnt að fólk fái að lágmarki þriggja mánaða leyfi þegar það örmagnast. „Þegar þetta uppgötvast þá er fólk komið í það mikla örmögnun að það þolir ekkert áreiti og er farið að hvæsa á börnin sín í tíma og ótíma og þá á ég ekki við þetta venjulega. Fólk er líka komið með rosalega heilaþoku, minnisþoku og jafnvel ofskynjanir.“

Eygló segir brýnt að opna umræðuna um örmögnun, einnig meðal heilbrigðisstarfsfólks. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi