Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fólk og híbýli vantar í Kaldrananeshreppi

Drangsnes strandir vestfirðir bæjir Frystihús atvinna Hólmadrangur
 Mynd: Jóhannes Jónsson - ruv.is
„Atvinnu- og húsnæðismál ásamt því að fjölga ungu fólki í sveitarfélaginu er efst á baugi hjá okkur í Kaldrananeshreppi.  Það vantar bæði fólk og húsnæði rétt eins og verið hefur undanfarin ár,“ segir Finnur Ólafsson oddviti. Til skoðunar sé hvort hreppurinn eigi að ráðast í byggingu íbúðarhúsnæðis. Verið sé að stækka frystihúsið og byggja nýja beitningaraðstöðu þar.

Fyrir tveimur árum var greint frá því í fréttum að það væru sex störf laus á Drangsnesi sem væri heldur mikið í 60 manna þorpi. Finnur segir uppgang í sveitarfélaginu en mannekla hái því sem fyrr. Hvað atvinnumálin snerti þá þurfi meiri fjölbreytni í störfin. Viðræður séu í gangi við erlendan aðila um möguleg tækifæri í sveitarfélaginu, eins og Finnur orðar það, en er ófáanlegur til að fara nánar út í þá sálma. „Það er ótímabært en þetta yrði stórt á okkar mælikvarða.“

Miklar framkvæmdir

Oddvitinn segir að verið sé að byggja sumarhús um allan hrepp, að minnsta kosti fimm eða sex talsins, flest í Bjarnarfirði. Megnið klárist líklega í sumar. Þá hafa miklar vegaframkvæmdir staðið yfir undanfarin ár. Nú er verið að smíða nýja brú yfir Bjarnarfjarðará sem leysir liðlega 80 ára gamla brú af hólmi.

Í fyrrasumar var nýr vegur tekinn í notkun yfir Bjarnarfjarðarháls, milli Steingrímsfjarðar og Bjarnarfjarðar. Íbúarnir gagnrýndu þá framkvæmd nokkuð á sínum tíma og gera enn. „Það er þyngra en tárum taki að vegagerðin skuli hafa skellt skollaeyrum við ítrekuðum ábendingum heimamanna um hvað betur mætti fara við hönnunina. Það hefur sýnt sig að öll gagnrýni okkar var á rökum reist en því miður var ekkert gert með þekkingu staðkunnugra. Vegurinn verður strax ófær á þeim stöðum sem bent hafði verið á,“ segir Finnur.

Drangsnes strandir vestfirðir bæjir
 Mynd: Jóhannes Jónsson - ruv.is

 

Engin sameining í farvatninu

Íbúar Kaldrananeshrepps voru 109 um áramótin sem gerir sveitarfélagið að því sjöunda fámennasta á landinu. Fyrir norðan er Árneshreppur þar sem íbúarnir voru 46 um áramót og hvergi færri. Þá er Strandabyggð hitt nágrannasveitarfélagið með 451 íbúa 1. janúar síðastliðinn.

Finnur segir að þrátt fyrir fámennið séu engar vangaveltur um sameiningu í gangi um þessar mundir.  „Sveitarsjóðurinn stendur vel og atvinnulífið er í blóma þótt við viljum að sjálfsögðu meiri fjölbreytni í það. Í sumar verður ráðist í fyrri hluta ljósleiðaravæðingar í hreppnum og seinni hlutanum lýkur að ári gangi allt eftir. Þetta er löngu tímabært. Eftir því sem ég kemst næst er Drangsnes annar af tveimur þéttbýliskjörnum landsins þar sem ekki er ljósleiðari.“

Íslandsmet kvenna í sveitarstjórn?

Þrír af fimm sveitarstjórnarmönnum skorast undan endurkjöri, þar af eru tvö sem setið hafa samtals í meira en hálfa öld í hreppsnefnd. Jenný Jensdóttir fyrrverandi oddviti telur hugsanlegt að hún hafi seti setið lengst allra kvenna á Íslandi í sveitarstjórn. Þrjátíu og tvö ár samfellt gæti verið Íslandsmet.

„Ég er búin að vera tæplega hálfa ævina í hreppsnefnd og finnst tími til kominn að hleypa öðrum að. Þetta er nú dálítið langt. Fyrir síðustu kosningar hélt ég að ég þyrfti ekki að skorast undan kjöri til að hætta í sveitarstjórninni en það kom annað á daginn. Því sá ég mitt óvænna að hafa þetta formlegt núna og senda lausnarbréf,“ segir hún kankvís á garðabandinu í sauðburðinum, þar sem heyra má kindurnar taka undir með jarmi í bakgrunni símtalsins.  

 

Björn Friðrik Brynjólfsson
Fréttastofa RÚV