Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Fólk kemst ekki upp með að bæta sig ekki“

21.06.2017 - 11:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fylgst verður náið með framvindu mála hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja næstu tólf mánuði, að sögn Leifs Bárðarsonar, staðgengils landlæknis. Niðurstöður úttektar embættisins, sem birtar voru á dögunum, voru á þá leið að þar væri skortur á læknum og hjúkrunarfræðingum, ástand í geðteymi og meðferðarteymi barna væri slæmt og að framkvæmdastjórn stofnunarinnar hefði ekki skýra stefnumörkun né aðgerðaáætlun. Þá er biðtími eftir tíma hjá lækni langur.

„Við úttekir hjá stofnunum af þessari stærð þá er málum fylgt eftir í tólf mánuði. Við biðjum um áfangaskýrslu eftir sex mánuði. Ef hún kemur illa út gerum við aðra úttekt. Fólk kemst ekki upp með að bæta sig ekki,“ segir Leifur. Hann bendir á að Embætti landlæknis fari með eftirlit en hafi engin úrræði til að þvinga fram breytingar. „Við getum bara bent á það sem betur má fara.“

Hann segir að vandi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja snúist ekki aðeins um skort á fjármagni. „Það fellur alltaf í hlut þess sem stjórnar að forgangsraða. Því er þó ekki að neita að það hefur verið mikill niðurskurður í heilbrigðisþjónustu síðan um aldamót og allar stofnanir súpa seiðið af því. Fjárveitingavaldið þarf því að hugsa sinn gang.“

Leifur segir miklar breytingar hafa orðið á eðli þeirrar þjónustu sem veitt er á heilbrigðisstofnunum undanfarin ár. Verkefnin séu fleiri og kröfurnar allt aðrar en áður. „Þarna á HSS starfar gríðarlega fært starfsfólk og við höfum engar áhyggjur af því, heldur frekar að það geti verið á réttum stað á réttum tíma.“