Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fólk horfi á ferilinn ekki „moldviðrið“

02.05.2018 - 18:31
Mynd: Þór Ægisson/RÚV / Þór Ægisson/RÚV
Bragi Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu, gagnrýnir þá meðferð sem mál hans fékk hjá velferðarráðuneytinu, hún sé ekki í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Hann telur sig eiga erindi í framboð til setu í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. „Mér finnst mikilvægt, þegar menn fjalla um þetta mál og þessi mál öll, mig og framboðið, að menn þekki minn bakgrunn og fyrir hvað ég stend en einblíni ekki á eitthvert moldviðri sem hefur verið varpað upp í tengslum við einstakt mál“

Ný gögn hafi borist á síðari stigum athugunarinnar

Ráðuneytið telur að Bragi hafi ekki brotið lög en farið út fyrir starfssvið sitt með því að vísa máli sem hann hafði aðkomu að ekki til sýslumanns. 

„Þetta mál lítur að því þegar afi barns ber upp kvörtun vegna meintra lögbrota barnaverndar Hafnarfjarðar. Hann gerir það í ljósi eftirlitshlutverks Barnaverndarstofu. Enn fremur óskar hann eftir því að Barnaverndarstofa leggi því lið að börnunum sé gert kleift að umgangast ömmu sína sem þá var dauðvona. Þetta var beiðnin, ég brást við henni með leiðbeiningum til afans og með tilteknum samskiptum við barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar. Nú, á seinni stigum þessarar athugunar berast einhver ný gögn inn í ráðuneytið, einhvers konar minnisblað og á grundvelli þessa minnisblaðs sem er um símtal mitt við barnaverndarstarfsmanninn skil ég það svo að ráðuneytið hafi komist að þeirri niðurstöðu að ég hefði átt að vísa málinu öllu til sýslumanns. Við þetta hef ég tvennt að athuga. Í fyrsta lagið komst ráðuneytið að þessari niðurstöðu án þess að gefa mér kost á að lesa gögnin eða koma andmælum við þetta sjónarmið á framfæri. Ég lít þannig á að þetta hafi verið brot á góðum stjórnsýsluháttum að afgreiða þetta með þessum hætti. Í öðru lagi ber þetta að mínu viti vott um vanþekkingu á ákvæðum barnaverndarlaga og skyldum Barnaverndarstofu. Þess vegna svaraði ég þessum ábendingum um hæl og við það situr. Ráðuneytið sendi til baka nótu um að það stæði við þessa túlkun. Ég vona að það verði af því að einhver óháður, lögfróður aðili fari yfir þessi samskipti og gefi álit sitt á þeim. Ég kvíði þeim dómi ekki.“ 

„Ég játa að ég lét mjög sterk sjónarmið í ljós“

Í Barnaverndarlögum er talað um eftirlit Barnaverndarstofu með barnaverndarnefndum. Þar segir til dæmis að Barnaverndarstofa geti krafið barnaverndarnefndir um gögn í einstökum málum og að á grundvelli kvartana eða upplýsinga sem henni berast um meðferð einstakra mála aflað gagna og skýringa hjá viðkomandi barnaverndarnefnd. Því hefur verið haldið fram að Bragi hafi gert meira en þetta. Hann hafi þrýst á um að faðir tveggja stúlkna, sem grunaður var um kynferðisbrot gegn þeim, fengi að umgangast þær. „Þessu vil ég einfaldlega svara svona. Í fyrsta lagi. Hver fer með ákvörðunarvald um umgengni barna og foreldra þegar ágreiningur er. Svarið við því er sýslumaður. Ef ég hefði ætlað að tryggja föðurnum aðgang að þessu barni hefði ég þurft að beina mínum erindum til sýslumanns sem er sá aðili sem tekur slíkar ákvarðanir. Ég beindi mínu erindi til barnaverndarinnar í Hafnarfirði því kvörtunin beindist einmitt að því að nefndin hefði hlutast til í þessu umgengnismáli án þess að hafa til þess lagaheimilidir. Ég var að gera akkúrat hið gagnstæða. Svo er þetta mál með umgengnina við ömmuna í þessum tilteknu aðstæðum um jólin 2016. Þá komst ég að raun um að lögmenn viðkomandi foreldra ásamt Barnavernd Hafnarfjarðar, var að reyna að greiða fyrir því að börnin fengju að hitta ömmu sína. Ég játa það að ég lét mjög sterk sjónarmið í ljósi um það að þetta væri og ætti að komast í kring,“ segir Bragi.  

En þekkti hann nógu vel til málsins til að hafa þessi afskipti? 

„Ja, ég þekki rétt barnanna. Börnin eiga rétt á umgengni við báðar fjölskyldur sínar,“ segir Bragi.

En þarna var faðirinn með og hann var grunaður um kynferðisofbeldi gegn börnunum. Bragi útskýrir að í þeim samskiptum sem hann átti hafi þetta ekki snúist um föðurinn heldur lögvarinn rétt barnanna til þess að kveðja dauðvona ömmu sína. „Þess vegna lét ég þessi sjónarmið í ljós og um það voru allir sammála.“

Vissi ekki að faðirinn yrði með

En var hann þá ekki meðvitaður um að faðirinn yrði með á þessum fundi?  „Ég var ekki meðvitaður um það, ekki á fyrstu stigum málsins. Ég fékk síðar þær skýringar að amman og afinn hefðu sett það skilyrði. Um það hef ég ekkert að segja, þetta er eitt símtal og eftir að ég öðlaðist þá vitneskju og hafði tjáð mig við starfsmanninn var því og mínum afskiptum af þessu fullkomlega lokið. Ég ritaði afanum tölvubréf og gerði honum grein fyrir því að hvorki barnaverndarnefnd né Barnaverndarstofa hefðu lagalegt umboð til að fjalla um umgengnisþáttinn og hvatti hann til þess að snúa sér til sýslumanns.“

Símtölin lausnamiðuð og skipti hundruðum

Bragi segir að Barnaverndarstofa hafi bæði eftirlits- og ráðgjafarhlutverk. Símtölin sem hann hafi fengið frá barnaverndarstarfsmönnum skipti hundruðum og oft hafi hann hringt í barnaverndarstarfsmenn. Þetta séu lausnamiðuð samtöl þar sem menn reyna að glöggva sig á flóknum málum. Menn leiti í smiðju Barnaverndarstofu og Barnaverndarstofa reyni að fylgjast með því að unnið sé eftir því verklagi sem ber að vinna eftir. En er eðlilegt að forstjóri Barnaverndarstofu hringi beint í starfsmenn sem vinna að einstökum barnaverndarmálum? Hann segir forstjóra hafa sömu heimildir og aðra starfsmenn Barnaverndarstofu. Þetta sé ekki fjölmenn stofnun. Þá hafi erindið borist um jól þegar fáliðað var á skrifstofunni. 

„Það er alveg rétt að þetta er ekki, það eru aðrir starfsmenn sem eru líklegri til að taka svona erindi ef því er að til að skipta en það er ekkert sem mælir gegn því að ég geri það. Eg get hins vegar tekið undir að ef til vill hef ég ekki áttað mig á því nægjanlega að starfsmenn nefndanna sem fá hringingar frá mér, það má vel vera að þeim bregði eitthvað í brún því þeir eiga því ekki að venjast. Mér þykir það leitt.“ 

Hann segist þó ekki myndu haga gjörðum sínum öðruvísi ef hann væri enn forstjóri Barnaverndarstofu og svipað erindi kæmi inn á borð til hans. 

„Ég fór að lögum, ég brást hratt við, tíminn skipti miklu máli.“

„Við búum í réttarríki“ 

Bragi er í framboði til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, nýtur stuðnings stjórnvalda og telur sig eiga fullt erindi, niðurstaða velferðarráðuneytisins um að hann hafi farið út fyrir starfssvið sitt og umræða í fjölmiðlum breyti engu þar um. Við búum í réttarríki og það sé ekki fjölmiðla að kveða upp úr um sekt hans eða sakleysi af einhverjum ákvörðunum eða lögbrotum. „Við höfum sem betur fer annað kerfi sem er ætlað það hlutverk og þó að fjölmiðlamenn á borð við Rúv og stundina telji sig hafa heimildir til að gefa mönnum einkunnir og fella dóma þá hafa þeir þær ekki.“ 

Telur sig eiga fullt erindi

Þá finnst honum mikilvægt að fólk, sem tekur afstöðu til þess hvort hann eigi erindi í framboð, hafi það í huga hvað hann stendur fyrir og hefur gert á sínum ferli. „Mér finnst mikilvægt þegar menn fjalla um þetta mál og þessi mál öll sömul að menn þekki minn bakgrunn og fyrir hvað ég stend en einblíni ekki á moldviðri sem hefur verið varpað upp í tengslum við einstakt mál.“

Tekur þú þá ekki mark á því sem starfsmenn barnavernda hafa talað um, að þú hafi verið yfirgangssamur eða dónalegur og þrýst á um niðurstöður mála eða hvernig þau haga sinni vinnu?

„Ég held þú sért að draga ályktanir umfram það sem gögn málanna gefa tilefni til. Ég vil vekja athygli á því að Ríkisútvarpið hefur undir höndum samtímaheimildir um samskipti mín við barnaverndarstarfsmenn mörg ár aftur í tímann. Við lestur þeirra ganga blasir við að þau samskipti eru jafnan og undantekningalaust jákvæð og lausnamiðuð. Þar er ekki að finna nokkrar vísbendingar um að framkomu minni hafi verið ábótavant. Það sem gerist í haust er annar kapítuli en þetta er staðreyndin í málinu.“ 

Spegillinn hefur séð þessi gögn, þar er ekki hægt að sjá skýr merki um óánægju starfsmanna með samskiptin við Braga. Í kvörtun barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar til velferðarráðuneytisins er hann aftur á móti sakaður um óeðlileg og óþægileg afskipti af málum. 

Flókin mál

Bragi kom fyrir velferðarnefnd Alþingis í dag og ræddi málið á lokuðum fundi. Hann segir þessi mál mjög flókin og að kannski megi rekja umræðuna alla til þess hversu erfitt fólk eigi með að skilja þau. „Mál af þessum toga eru í fyrsta lagi sakamál, lúta þar sérstökum lögum. Þau eru barnaverndarmál þar sem eru sérlög og framkvæmd og í þessu tilviki er þarna um umgengnisréttarmál að ræða jafnframt. Þannig er aðkoma manna að svona málum mjög misjöfn og ég er þarna náttúrulega að starfa á grundvelli barnaverndarlaga.“ 

Hann segist ekki endilega sammála því, sem félagsmálaráðherra hefur haldið fram, að það sé ekkert svart eða hvítt í svona málum. Þetta eigi við í umgengnisréttarmálum en ekki endilega í barnaverndarmálum sem slíkum eða sakamálum. „Vissulega er svigrúm til að hafa mismunandi sjónarmið og skynja hluti með mismunandi hætti en að sumu leyti er kannski auðveldara að festa hendur á veruleikann.“ 

Halldóra: „Þetta hefur ekki gjörbylt málinu“

Nefndin er klofin í afstöðu sinni til málsins og þess hvort ráðherra hafi sinnt upplýsingaskyldu sinni. Spegillinn ræddi Ólaf Þór Gunnarsson, fyrsta varaformann, úr Vinstri grænum, og Halldóru Mogensen, formann nefndarinnar og þingmann Pírata eftir fundinn. „Það er gott að Bragi kom og hann kom með sína hlið á málinu sem er mjög mikilvægt. Þar komu upp upplýsingar sem eiginlega kalla á fleiri upplýsingar eins og gengur og gerist. Ég er bara aðeins að melta þetta og skoða en þetta hefur ekki gjörbylt málinu þannig séð.“ 

Hún segir málið þó fyrst og fremst snúast um ábyrgð ráðherra. Hún og fleiri innan nefndarinnar hafi í lok febrúar óskað eftir gögnunum sem lágu að baki formlegri niðurstöðu ráðuneytisins í málinu en fengið þau skilaboð frá ráðherra að þau væru ekki til. Mestu máli skipti að ráðherra aflétti trúnaði af skjölunum sem fyrst. 

„Ég tel að Bragi hafi greint skýrt og vel frá sínu máli,“ segir Ólafur Þór og bætir því við að frásögn hans hafi verið í algjöru samræmi við þau trúnaðargögn sem nefndin hefði fengið. Þá segist hann ekki hafa nokkra ástæðu til að ætla að ráðherra hafi leynt nefndina gögnum.