Fólk fattar ekki hvað við vinnum mikið

Mynd: Guðmundur Einar / Guðmundur Einar

Fólk fattar ekki hvað við vinnum mikið

04.07.2018 - 16:22
Fyrsti þátturinn af Rabbabara, nýrri vefþáttaröð, var frumsýndur í gær. Rabbabari er kvikmynduð útgáfa af útvarpsþáttunum vinsælu í stjórn Atla Más Steinarssonar. Í þáttunum kynnist hann ferskasta fólkinu í íslensku rappsenunni og reynir að finna á því óvæntar hliðar. Í fyrsta þætti hittir hann rapparann Birni.

Birnir skaust upp á stjörnuhimininn á síðasta ári með lagi sínu Á sama tíma. Síðan þá hefur hann gefið út lög eins og Út í geim, Ekki switcha og Já ég veit, þar sem hann fékk Herra Hnetusmjör til liðs við sig. Nú loksins er plata á leiðinni og hún er væntanleg á þessu ári.

Í þættinum ræða Atli Már og Birnir meðal annars frægðina og framann sem fylgir því að vera hluti af íslenskri tónlistarsenu. „Auðvitað er þetta allt geðveikt gaman, en mér finnst athyglin ekkert sérstaklega skemmtilegur partur af þessu, það sem mér finnst skemmtilegast er bara að búa til tónlist.“

En tónlist verður ekki til af sjálfu sér og það er mikil vinna á bak við hvert lag. „Ég held að fólk átti sig ekki á því hvað við vinnum mikið, þetta er það eina sem að við gerum,“ segir Birnir, „ég myndi aldrei gefa neitt út nema að ég væri 100% sáttur með það. Ég er búinn að gera 200 lög en það eru samt bara 10 lög að fara að meika það á þessa plötu.“

Þetta er fyrsti þáttur af átta í seríunni en í næstu þáttum fáum við meðal annars að kynnast Aroni Can, Alviu og Flóna. Hægt er að horfa á þáttinn í fullri lengd í spilaranum hér fyrir ofan.