Fólk ekki vant því að tala við innflytjendur

Mynd: Rætur / RÚV

Fólk ekki vant því að tala við innflytjendur

31.01.2016 - 20:20

Höfundar

Sabine Leskopf hefur búið á Íslandi í 15 ár og er gift íslenskum manni. Fyrir nokkrum árum fóru þau á íbúafund þar sem ræddar voru framkvæmdir sem fyrirhugaðar voru í hverfinu þeirra. „Þá tók ég eftir að allir spurðu manninn minn hvað honum fyndist um þessar framkvæmdir en enginn spurði mig og ég hafði líka skoðanir.“

Sabine ákvað því að taka til máls en fékk þá viðbrögð sem hún átti ekki von á. „Svarið sem ég fékk frá fundarstjóranum var: Nei mikið talar þú góða íslensku vina mín, hvað ertu búin að búa hér lengi?“ Þetta fékk á hana og hún hugsaði með sér: „Hlustaði hann ekki á það sem ég sagði? Meðtók hann þetta ekki? Tók hann eftir því hvernig ég bar það fram en ekki hvað ég sagði?“

Sabine segist oft fá hrós fyrir að tala góða íslensku og hún viti að fólk meini það vel. En það breyti því ekki að stundum líði henni eins og hún sé leikskólabarn sem þurfi klapp á bakið. Hún sé búin að búa hér í fimmtán ár og það sé ekki neitt óvenjulegt að hún geti talað málið. „En það segir okkur náttúrulega að fólk er ekki vant því að tala við innflytjendur og þá sérstaklega ekki um önnur mál en innflytjendamál.“

Sabine var á meðal viðmælenda í síðasta þætti Róta sem sýndur var á RÚV í kvöld. Í Rótum er fjallað um fólk sem á rætur um allan heim en hefur sest að á Íslandi. Í þættinum var líka fjallað um birtingamyndir innflytjenda í fjölmiðlum, farið í heimsókn til bandarískrar ömmu sem snaraði fram ekta New York-lasagna og rætt við Anup Gurung. Hann er Nepali sem hefur búið í Skagafirði síðustu fimmtán ár, þar sem hann rekur flúðasiglingafyrirtæki. „Ég er ekki alveg Skagfirðingur, en ég kann að syngja og drekka eins og Skagfirðingur.“