Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fólk á faraldsfæti um verslunarmannahelgina

29.07.2016 - 19:32
Landsmenn leggja gjarnan land undir fót um verslunarmannahelgi og á því er engin breyting í ár. Víða um land er boðið upp á skipulagða skemmtidagskrá og ættu flestir að geta fundið hátíð við sitt hæfi. Fréttastofan kíkti á Selfoss, Vestmannaeyjar, Siglufjörð og Súðavík.

Mikil umferð hefur verið á vegum landsins, sérstaklega á Suðurlandi. Alma Ómarsdóttir, fréttamaður, var við Ölfusárbrú, þar sem röð bíla myndaðist í dag. Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðarlögregluþjónn, sagði að umferðin hafi gengið mjög vel og hún hafi náð hámarki milli þrjú og fimm. Flöskuháls sé við Ölfusárbrú og þar hafi myndast mikil bílaröð. Brúin sé orðin 70 ára og tímabært að endurnýja hana en því hafi þó verið frestað og breikkun vegarins sett í forgang.

Guðmundur Björn Þorbjörnsson, fréttamaður, var staddur í Vestmannaeyjum og fylgdist með setningarathöfn Þjóðhátíðar í dag. Hátt á sjötta þúsund gesta eru komnir til Vestmannaeyja og var bleiki liturinn áberandi. Með átaksverkefninu Bleiki fíllinn er vakin athygli á kynferðislegu ofbeldi. Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, tekur umræðunni fagnandi og segir Þjóðhátíð ekki hafa beðið hnekki vegna umræðna síðustu daga um ákvörðun lögreglustjóra að tilkynna ekki strax um kynferðisbrot.

Síldarævintýri á Siglufirði hefur fest sig í sessi en útlit var fyrir um tíma að ekki fengist leyfi í ár til að halda hátíðina. Ágúst Ólafsson, fréttamaður, náði tali af Gunnari I. Birgissyni, bæjarstjóra í Fjallabyggð, sem var kominn með leyfið í hendurnar. 

Halla Ólafsdóttir, fréttamaður, var stödd á gönguhátíð Súðavíkur. Hátíðin var formlega sett í gærkvöldi. Pétur Markan, sveitarstjóri Súðavíkur, segir hátíðina gott tækifæri til þess að koma og leyfa gestum og heimamönnum að njóta náttúrunnar saman. Hann segir gríðarlega öflugt mannlíf á Vestfjörðum.

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV