Folald finnur nýja móður

Mynd með færslu
 Mynd:

Folald finnur nýja móður

06.06.2014 - 19:42
Harmsaga tveggja einstæðinga fékk farsælan endi í gær, þegar móðurlaust folald komst í fóstur hjá meri sem hafði misst tvíburafolöld. Eigendur munaðarleysingjans leituðu á náðir samfélagsmiðla til að finna því nýja móður.

Það leit út fyrir að illa færi fyrir þessum litla munaðarleysingja í gær. Hann fannst ráfandi um á jörðinni Skíðbakka eftir að móðir hans drapst. Eigendurnir Guðbjörg Albertsdóttir og Rútur Pálsson vissu að þau yrðu að bregðast snarlega við, enda folaldið aðeins tveggja vikna, og bjargarlaust án móðurmjólkurinnar. Þau gripu til þess ráðs að auglýsa eftir kaplamjólk á Facebook. Auglýsingin rataði víða og eftir krókaleiðum var þeim bent á Gunnar Auðunsson hrossabónda í Sandgerði og merina hans Tinnu. 

„Hún kastaði tveimur fololdum á mánudagskvöldið en þau drápust bæði,“ segir Gunnar. 

Það er ekki sjálfgefið að ókunnug meri og folald nái saman svo hún mjólki. Í fyrstu sýndi hún nýja foldaldinu litla blíðu og sparkaði í það. Svo vaknaði móðureðlið.

„Ég var hérna út í hesthúsi í nótt og lét hann drekka á tveggja tíma fresti og undir morgun var merin orðin sátt við það og allt í besta lagi.“

Folaldið þykir hið laglegasta og segir Gunnar að það hafi braggast hratt eftir að það kom til merarinnar. Eins og sjá má halda þau sig þétt saman og móðirin skýlir ungviðinu fyrir forvitnum gestum. Þau verða saman að minnsta kosti næstu sjö til átta mánuði í hagagöngu. Það má því segja að sorgarsaga þeirra beggja hafi fengið farsælan endi.