Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Fnykur frá Holuhrauni við Noregsstrendur

09.09.2014 - 16:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Norska ríkisútvarpið NRK greinir frá því að vart hafi orðið við brennisteinsfnyk yfir norðurströnd Noregs þessa dagana og rekur óþefinn til eldgossins í Holuhrauni.

Rætt er við Vibeke Thyness hjá Norsku veðurstofunni. Hún segir að sennilega stafi gaslyktin af brennisteinsdíoxíði frá eldstöðinni. Norðmönnum stafi ekki hætta af gasinu sem hafi farið langan veg og útþynnt. Leiða má líkur að því að lyktin sem Norðmenn eru að finna sé það sem Íslendingar kannast við sem hveralykt. Thyness segir jafnframt að minni líkur séu á öskuskýi eins og fylgdi eldgosinu í Eyjafjallajökli fyrir fjórum árum. 

Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, telur mjög líklegt að gaslykt hafi borist þessa leið. Það sjáist greinilega á gervihnattarmyndum að mökkurinn frá eldstöðinni fari í áttina til Noregs, þótt erfitt sé að gera sér grein fyrir því á myndunum hver hæð skýsins sé.