Flytja frá Akureyri til þess að fá dagvistun

21.09.2017 - 19:34
Dæmi eru um að fólk flytjist frá Akureyri vegna skorts á dagvistunarúrræðum fyrir börn sín. Formaður fræðsluráðs Akureyrarbæjar segir erfitt að fjölga dagforeldrum í góðærinu.  

26 sjálfstætt starfandi dagforeldrar eru á Akureyri en enginn ungbarnaleikskóli er í sveitarfélaginu. Lengi hafa færri komist að en vilja og flestir dagforeldrar sem fréttastofa ræddi við eru fullbókaðir út næsta ár og með langa biðlista. Algengt er að foreldrar sæki um pláss fyrir börn sín löngu áður en þau fæðast, en það er ekki alltaf nóg. 

Fær pláss í maí eða ágúst

Tinna Stefánsdóttir var komin 12 vikur á leið þegar hún sótti um dagvistun. Dóttirin fæddist í febrúar og Tinna ætlaði að byrja að vinna um áramót. „Að gamni mínu hringdi ég áðan í einn af þeim stöðum og komst að því að ég er númer sex á biðlista fyrir janúar og hún sagði mér að það væru engar líkur á að ég kæmist að fyrr en í fyrsta lagi í maí og hugsanlega ekki fyrr en í ágúst,“ segir Tinna.

Margir séu í svipaðri stöðu „Ég sá á netinu að það hefði byrjað ný dagmamma í haust og á degi eitt var hún komin með tuttugu á biðlista þannig að það er bara spurning að vera alveg á tánum og fylgjast með öllu sem gerist,“ segir Tinna. 

Ætla að flytja í Dalvíkurbyggð

María Marínósdóttir sótti um pláss fyrir son sinn þegar hann var nýfæddur, sem hún segir að hafi greinilega verið of seint. Fæðingarorlofi lýkur senn, ekkert pláss í augsýn og þau hafa ákveðið að fara. „Við ætlum að flytja í Dalvíkurbyggð, á Hauganes, núna um áramótin. Við vorum svo heppin að fá leikskólapláss á Árskógsströnd, í leikskólanum þar,“ segir María. Þetta sé gert af illri nauðsyn, enda þurfi þau að komast aftur í vinnu. 

Tveir koma inn um áramót

Dagbjört Pálsdóttir, formaður fræðsluráðs, segir leitt að fólk flytji úr sveitarfélaginu. Börnum hafi fjölgað hratt í bænum að undanförnu og erfitt að fá dagforeldra til starfa í dag. „Auðvitað sjáum við fram á að það er erfiðara að manna þessar stöður og maður þarf pínu að leggja sig fram við það, eins og ég segi það eru mörg önnur störf í boði,“ segir Dagbjört. 

Akureyrarbær ábyrgist ekki dagvistun fyrir átján mánaða aldur. Ekki hafi þótt ástæða til að stofna ungbarnaleikskóla, enda sé vandamálið tímabundið og árgangar minnki á næstu árum. Þó hafi bærinn beitt sér mikið að undanförnu við leit að dagforeldrum.

„Við vitum af tveimur sem koma inn um áramót, það eru tveir dagforeldrar búnir að gefa það út og því miður get ég ekki staðfest það núna en það eru fleiri í vinnslu,“ segir Dagbjört. 

María segir að sveitarfélagið hefði átt að gríp fyrr inn í. „Það í rauninni breytir ekki svo miklu þegar eru kannski 30 börn á biðlista að þá eru tíu börn sem komast að hjá þessum tveimur dagforeldrum, það er ekki meira en það,“ segir María.