Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flytja á Róhingja út í eyju á Bengalflóa

22.10.2019 - 08:15
Erlent · Asía · Bangladess · Mjanmar · Róhingjar
epa07783993 (FILE) - A general view of a Rohingya refugees' makeshift camp in Kutubpalang, Cox Bazar district, Bangladesh, 26 August 2018 (reissued 21 August 2019). Bangladesh is set to start repatriations for Rohingya Muslim refugees on 22 August, media reported. The Bangladeshi refugee commissioner said only 21 families out of 1,056 selected for repatriation were willing to be interviewed by officials about whether they wanted to return. Rohingya refugees in Bangladesh camps are said to fear they will face violence and oppression once back in Myanmar, media added.  EPA-EFE/MONIRUL ALAM
Flóttamannabúðir í Cox´s Bazar. Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld í Bangladess ætla að flytja 100.000 Róhingja úr flóttamannabúðum í Cox´s Bazar yfir í eyju á Bengalflóa og hefjast flutningar eftir mánaðamót.

Stjórnvöld segja að þröngt sé orðið í búðunum í Cox´s Bazar og ætlunin sé að flytja fólkið til eyjarinnar Bhasan Char. Um 7.000 Róhingjar hafi þegar samþykkt að fara þangað, enginn verði þó neyddur til þess.

Meira en ein milljón Róhingja dvelur í flóttamannabúðunum í Cox´s Bazar, flóttafólk frá Mjanmar. Um 730.000 flýðu þangað fyrir tveimur árum vegna ofsókna hersins Mjanmar.

Samningaviðræður hafa staðið milli ríkjanna tveggja um að Róhingjar geti snúið aftur til Mjanmar, en þær viðræður hafa engan árangur borið. Ráðamenn í Bangladess segja að búðirnar í Cox´s Bazar ráði ekki við allan þennan fjölda.

Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt áform stjórnvalda í Bangladess um að flytja hluta fólksins til Bhasan Char. Eyjan sé langt frá landi, þar fari fellibyljir reglulega yfir og þá sé mikil hætta á flóðum. 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV