Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Flybe hættir rekstri og 2.000 missa vinnuna

05.03.2020 - 04:35
epa08126888 A De Havilland DHC-8-400 twin turboprop plane of British airline Flybe Group PLC taxies to take off from London's City Airport in London, Britain, 14 January 2020. Flybe, Europe's biggest regional airline is trying to secure additional financing after mounting losses. The UK government is considering cutting air passenger duty on domestic flights as part of a plan to save the Exeter-based airline from collapse.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: epa
Breska flugfélagið Flybe hefur verið lýst ógjaldfært og allar flugvélar þess kyrrsettar, samkvæmt tilkynningu sem stjórnendur félagsins birtu á heimasíðu þess í nótt. Allri starfsemi félagsins hefur verið hætt, um 2.000 manna starfslið þess missir að líkindum vinnuna og tugir þúsunda farþega, sem áttu bókaða flugferð hjá því, verða að finna út úr því sjálfir, hvernig þeir komast á áfangastað.

Flybe, sem hefur verið eitt umsvifamesta flugfélagið í bresku innanlandsflugi um árabil, hefur átt í talsverðum rekstrarörðugleikum að undanförnu. Það komst naumlega hjá gjaldþroti í janúar síðastliðnum, þegar bresk skattayfirvöld veittu því greiðslufrest.

Minnkandi ferðagleði fólks eftir að COVID-19 faraldurinn braust út bætti svo gráu ofan á svart hjá Flybe eins og mörgum flugfélögum öðrum. Því falaðist félagið eftir frekari skattaívilnunum og 100 milljóna punda neyðarláni frá breska ríkinu til að forðast gjaldþrot. Það gekk ekki eftir og því er það nú í greiðslustöðvun og rekstur liggur niðri.