Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fluttur úr landi eftir barsmíðar í fangelsi

21.02.2018 - 17:40
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook
Ungur hælisleitandi sem varð fyrir alvarlegri líkamsárás á Litla-Hrauni fyrir réttum mánuði, hefur verið fluttur úr landi. Vinir hans og velunnarar hér á landi vissu ekki af flutningnum.

Houssin Bsraoi lagði mikið á sig til að komast til Íslands. Hann kom hingað fyrir hálfu öðru ári ásamt félaga sínum, Yassine, sem laumufarþegi með Norrænu. Þeir höfðu bundið sig undir flutningabíla til að komast hingað eftir margra mánaða flæking um Evrópu.

Strákarnir voru í umsjá barnarvernaryfirvalda í nokkra mánuði og sóttu um alþjóðlega vernd. Yassine fékk hana og býr nú í góðu yfirlæti hjá fósturfjölskyldu í Bolungarvík.

Barinn á Litla-Hrauni

Houssin var ekki svo heppinn. Hann var úrskurðaður eldri en átján ára og gert að fara úr landi. Hann gerði þá ítrekaðar tilraunir til að komast á skip vestur um haf, var handtekinn og endaði á Litla-Hrauni. Samfangar hans gengu í skrokk á honum þar fyrir mánuði, og brutu meðal annars í honum tennurnar. Þá var Houssin fluttur í fangelsið á Hólmsheiði.

Fjölskylda Yassine og aðrir vinir hans tóku að undrast um hann í vikunni, og sáu loks á Facebook að hann virtist hafa verið fluttur til Marokkó. Hvorki verjandi hans né lögfræðingur Rauða Krossins vissu af brottvísuninni. 

„Ég hafði bara samband við stoðdeild Ríkislögreglustjóra og fékk þau svör að hann væri í Casablanca, og hefði verið fluttur þangað í gær.
Þar held ég að bíði hans ekkert annað en gatan," segir Guðríður Lára Þrastardóttir, lögfræðingur Rauða Kross Íslands.

Hún hefur sótt um að ákvörðun um að synja Houssin um alþjóðlega vernd verði tekin upp aftur. Hún segir ekki algengt að hælisleitendur séu fluttir úr landi þegar sótt hafi verið um endurupptöku. Endurupptökubeiðninni verður haldið til streitu, þótt Houssin hafi verið fluttur til Marokkó.

„Þetta mál er auðvitað allt mjög sorglegt. og íslensk stjórnvöld hefðu frá upphafi átt að fara með þetta mál á allt annan hátt. Það er mín skoðun. Svo varðandi þennan flutning núna þá tel ég að hann hefði átt að njóta vafans fram að úrskurði kærunefndar varðandi þessa endurupptökubeiðni. Þannig að þetta er bæði ljótt og sorglegt mál," segir Guðríður.

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV