Fluttum mest allra af makríl til Rússlands

14.08.2015 - 19:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslendingar voru langstærsti útflytjandi á makríl til Rússlands í fyrra og það sem af er þessu ári. Bannið kemur á versta tíma fyrir íslensk fyrirtæki. Færeyingar og Grænlendingar eru nú í kjörstöðu en áframhaldandi óvissa er á öðrum mörkuðum.

Samkvæmt tölum frá íslenska greiningafyrirtækinu Markó Partners voru Íslendingar stærstu innflytjendur á makríl til Rússlands á síðasta ári. En 50.000 tonn voru flutt þangað eða helmingur alls markíls sem var fluttur til Rússlands. Næstir koma Írar og Bretar með um 12% af heildarinnflutningi. Noregur er í fimmta sæti en bann gegn þeim tók ekki gildi fyrr en í ágúst.

Það sem af er ári hafa Íslendingar flutt mest af makríl til Rússlands en verð var almennt lakara en í fyrra.

Bannið kemur á versta tíma þar sem þorri makríls er seldur til Rússlands í ágúst og september. Því voru mikilvægustu mánuðirnir framundan.

Færeyingar og Grænlendingar eru nú í kjörstöðu að margra mati. Þeir hafa enn aðgang að Rússlandsmarkaði og líklegt að verði hækki þegar framboð dregst saman og eftirspurn eykst. Sérfræðingar sem fréttastofa hefur rætt við telja ekki ólíklegt að dönsk fyrirtæki reyni að flytja afurðir til Rússlands í gegnum Grænland, en þangað hafa íslensk fyrirtæki einnig tengingu.

Enn ríkir óvissa á öðrum mörkuðum fyrir uppsjávarfisk. Nígeríumarkaður er lokaður vegna gjaldeyrishafta, óvissa ríkir í Úkraínu vegna stríðsátaka og þá hafa Kínverjar fellt gengi júan þrjá daga í röð. Það gerir kaupendum þar í landi erfiðara um vik. Norðmenn eru í sambærilegri stöðu og Íslendingar. Á fyrstu sjö mánuðum þessa árs hefur útflutningur þeirra á makríl þó verið dreifðari.

asgeirjo's picture
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi