Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Fluttu til Brasilíu fyrir 150 árum

09.10.2013 - 20:42
Mynd með færslu
 Mynd:
Borgarráð Curitiba í Brasilíu afgreiddi í dag með formlegum hætti ákvörðun um vinabæjartengsl við Akureyri. Viðstaddir voru tugir afkomenda Íslendinga, sem fagna því að nú eru 150 ár síðan fyrsti hópur Íslendinga flutti búferlum til Suður - Brasílíu.

Margir þeirra sem voru í samankomnir í ráðhúsi Curitiba í dag eiga ættir sínar að rekja norður í Þingeyjarsýslur. Fyrir þau var þetta mjög mikilvæg stund og hápunktur í hátíðarhöldum í tilefni þess að150 ár eru nú liðin frá fyrstu ferðum Íslendinga þangað suður. Alls komust 39 Íslendingar alla leið til Brasilíu á árunum 1863 og 1873 og búa flestir afkomendur þeirra í Curitiba í nágrenni borgarinnar, en hún er höfuðborg Paraná-fylkis í Suður-Brasilíu.

Þetta var tilfinningaþrungin stund í dag enda langþráður draumur um tengsl við Ísland að rætast. Curitiba er þriggja milljóna manna borg og er talin ein þróaðasta borg Suður-Ameríku hvað snertir skipulagsmál, menntun, samgöngur, viðskipti og umhverfismál.

Paulo Salamuni, forseti borgarráðs, sagði að Curitiba væri ekki sú borg sem hún er ef ekki væri fyrir fjölmenningu sem Íslendingar áttu sinn þátt í að skapa. Um áratuga skeið hefur verið starfandi Íslendingafélag í borginni og er langþráður draumur að rætast.