Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Flutningaskip dregið í Vestmannaeyjahöfn

14.03.2018 - 11:21
Mynd með færslu
Í Vestmannaeyjahöfn. Mynd úr safni.  Mynd: Sighvatur Jónsson - RÚV
Lóðsinn í Vestmannaeyjum er væntanlegur í höfn í Vestmannaeyjum eftir um þrjár klukkustundir með erlenda flutningaskipið Wilson Harrier í togi. Áhöfn skipsins óskaði um sjö leytið í morgun eftir aðstoð lóðsins við að komast í höfn eftir að bilun kom upp í vél skipsins. Þetta segir Andrés Sigurðsson, hafnarstjóri í Vestmanneyjum í samtali við fréttastofu.

Wilson Harrier er milli tvö og þrjú þúsund tonna skip. „Þetta er venjulegur búlkari, um 80 metra langur,“ segir Andrés. „Skipið er um 15 til 20 sjómílur suðaustur af Vestmannaeyjum. Lóðsinn er kominn á staðinn og er að taka hann í tog. Það er engin hætta á ferðum, hann er það langt úti. Það er leiðinlegt veður, mikill vindur og mikið rek á honum en skipið er það langt úti að það var aldrei nein hætta. Við gætum þurft að biða með að taka hann inn í höfnina út af veðri,“ segir hann. Um 20 metra vindur er í Vestmannaeyjahöfn. 

Annað Wilson skip hafi þegar verið komið að Wilson Harrier þegar lóðsinn kom á staðinn. Andrés segir að það skip hafi átt að koma í höfn í Vestmanneyjum í nótt en að það hefði tekið á sig krók til að koma hinu til aðstoðar. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV