Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Flúor yfir mörkum á átta stöðum

30.07.2014 - 11:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Flúormengun í grasi í Reyðarfirði mælist yfir viðmiðunarmörkum á átta stöðum utan þynningarsvæðis álvers Alcoa, samkvæmt meðaltali fyrstu þriggja mælinga sumarsins. Tveir þessara staða eru í kauptúninu. Alls er flúor mælt á á þriðja tug staða utan þynningarsvæðisins.

Að jafnaði mælist flúormengunin nú rétt undir viðmiðunarmörkum, ef allir mælistaðir utan þynningarsvæðisins eru teknir með. Minni mengun reyndist í grasi í þriðju mælingu sumarsins en í fyrstu tveimur. Talið er að það gæti skýrst af því að rignt hafði dagana fyrir þriðju mælinguna, en í fyrri tvö skiptin var þurrviðri dagana áður en mælt var. Fleiri þættir geta þó haft áhrif á mælingu hverju sinni, til dæmis vindstyrkur, og eru sveiflur því algengar. Umhverfisstofnun horfir til uppsöfnunar flúors yfir lengra tímabil.