Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Flugritar vélarinnar fundust í morgun

11.03.2019 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd:
Flugritar eþíópísku Boeing-vélarinnar fundust í morgun en vélin hrapaði skömmu eftir flugtak í gær. 157 fórust. Vonast er til að þeir varpi ljósi á hvað varð til þess að vélin hrapaði.

Rannsókn á tildrögum slyssins hófst í morgun en flugsérfræðingar segja of snemmt að segja til um hvað olli því. Sumir þeirra segjast sjá líkindi með þessu og þegar farþegaþota Lion Air hrapaði í Jövuhaf í fyrrahaust. Þá fórust 189 með Boeing 737 Max 8 vél, skömmu eftir flugtak.

Ólíklegt að sprenging hafi orðið um borð

Flugritar eþíópisku vélarinnar fundust í morgun en annar þeirra geymir öll samskipti flugmanna og ætti að varpa ljósi á hvað það var sem gerðist. Ólíklegt er að einhvers konar sprenging hafi orðið um borð því flugmönnunum gafst tóm til að senda frá sér neyðarkall, en samband við flugturn rofnaði sex mínútum eftir flugtak frá flugvellinum í Addis Abana, höfuðborg Eþíópíu, en vélin var á leið til Naíróbí í Kenýu. Flugmennirnir virðast þó hafa fengið við eitthvað ráðið því töluverðar sveiflur voru í flughraða vélarinnar áður en samband rofnaði. Ethiopean Airlines er eitt stærsta flugfélag Afríku en það flýgur til nítján áfangastaða um allan heim. Það hefur ákveðið að kyrrsetja allar Max-vélar í sinni eigu. 157 voru um borð í vélinni sem hrapaði skammt frá Addis Ababa. Þeirra á meðal voru nítján starfsmenn Sameinuðu þjóðanna, en þeir voru á leið á umhverfisráðstefnu í Naíróbí sem hófst í morgun. 

Hlutabréfaverð í Boeing lækkar um tíu prósent

Bandaríski flugvélaframleiðandi Boeing hefur áður lýst því að Max-vélarnar hafi selst betur og hraðar en nokkur önnur tegund sem Boeing hefur sett á markað. Rúmlega fimm þúsund vélar hafa verið pantaðar og viðskiptavinirnir eru fleiri en eitt hundrað. Vélin sem brotlenti í gærmorgun var afhent innan við fjórum mánuðum eftir að hún hrapaði. Eþíópíska-félagið hafði fengið átta slíkar þotur afhentar af þrjátíu sem félagið pantaði. Hlutabréf í Boeing hafa fallið í verði í morgun vegna þessara væringa. Skömmu eftir opnun markaða á Wall Street í morgun hafði verð fallið um rúm tíu prósent, og er nú tæplega 380 bandaríkjadalir á hlut. Ef fer sem horfir í dag lækkar markaðsvirði Boeing um 24 milljarða bandaríkjadala í viðskiptum dagsins.