Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Flugóhapp á Keflavíkurflugvelli

21.07.2013 - 07:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Flugvél hlekktist á í snertilendingu á Keflavíkurflugvelli um klukkan hálf sex í morgun. Fimm manns voru um borð og flytja þurfti einn á sjúkrahús til aðhlynningar en hann sneri sig á ökkla. Aðrið sluppu ómeiddir.

Samkvæmt upplýsingum frá starfsmanni brunavarna Suðurnesja gengu hjól flugvélarinnar ekki niður með þeim afleiðingum að hún magalenti og rann út af flugbrautinni. Ekki er ljóst hvort það var bilun sem olli eða hvort það gleymdist að setja hjólin niður.

Flugvélin, sem er rússnesk af gerðinni Sukhoi Superjet 100, skemmdist talsvert við slysið og ekki verður hægt að fljúga henni næstu vikur. Hreyfill hennar er hálfbrotinn af og að öllum líkindum ónýtur. Öll áhöfn vélarinnar er rússnesk.

Óhappið hefur engin áhrif á umferð um Keflavíkurflugvöll. 

Sukhoi Superjet 100 er ný gerð flugvéla. Vél af þessari tegund fórst þegar hún var í sýningarflugi yfir fjalllendi suður af Jakarta í Indónesíu í maí í fyrra. 50 fórust með vélinni. Flestir voru fulltrúar flugfélaga og flugmálayfirvalda í Indónesíu.