Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Flugfélagið Flybe á barmi gjaldþrots

05.03.2020 - 00:54
epa08126946 A De Havilland DHC-8-400 twin turboprop plane of British airline Flybe Group PLC takes off from London's City Airport in London, Britain, 14 January 2020. Flybe, Europe's biggest regional airline is trying to secure additional financing after mounting losses. The UK government is considering cutting air passenger duty on domestic flights as part of a plan to save the Exeter-based airline from collapse.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: epa
Óttast er að breska flugfélagið Flybe fari í þrot innan fárra klukkustunda. Þrot félagsins myndi hafa áhrif á tvö þúsund starfsmenn, að því er fram kemur á vef BBC og Financial Times. Stjórnendum flugfélagsins tokst naumlega að forða því frá gjaldþroti í janúar. Þeir segja að ástæðan fyrir rekstrarerfiðleikum flugfélagsins nú sé meðal annars minni eftirspurn eftir flugfarmiðum vegna COVID-19 faraldursins.

Flugi félagsins frá Glasgow til Birmingham í kvöld var aflýst. Vegna rekstrarerfiðleika Flybe undanfarna mánuði hafa margir tekið upp á því að kalla flugfélagið flymaybe, sem gæti útlagst sem fljúgum máske.

Financial Times, sem greindi fyrst miðla frá þessum nýjustu vandræðum Flybe, segir forráðamenn félagsins telja sig hafa fjárhagslegt bolmagn til að tryggja reksturinn út þennan mánuð og inn í vorið, þegar þeir vona að viðskiptin aukist á ný. Þetta á þó því aðeins við, að hið opinbera hlaupi undir bagga með lækkun opinberra gjalda og 100 milljón punda neyðarláni. Samkvæmt heimildum BBC þykir nú ólíklegt að af því verði úr þessu. 

Sérsvið Flybe er innanlandsflug á Bretlandseyjum. Þar hefur félagið  verið ráðandi á markaðnum um árabil. Þótt það sé ekki ýkja stórt á heimsvísu mun fall þess því hafa mikil áhrif á breskt innanlandsflug.
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV