Flugfélagið Ernir: 32 sæta flugvél á leiðinni

02.02.2018 - 09:51
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
„Ég var í Þýskalandi í síðustu viku að ganga frá kaupum á 32 sæta flugvél sem við erum að hefja rekstur á með vorinu,“ sagði Hörður Guðmundsson, stofnandi og framkvæmdastjóri flugfélagsins Ernis, á Morgunvaktinni. Hörður stofnaði flugfélagið 1970 og sinnti lengi sjúkra- og póstflugi og síðan áætlunarflugi. Þá hafa Ernir sinnt verkefnum í fjarlægum löndum.

Nýi farkosturinn er af gerðinni Dornier 328.  Hún leysir af hólmi minni vélar félagsins. Hörður vonast eftir að ný tækifæri opnist. Kosturinn við nýju vélina, sem væntanlega kemst í gagnið með vorinu, er hversu stutta flugbraut hún þarf. „Það er nú ástæðan fyrir því að við völdum þessa tegund. Hún kemst á miklu fleiri brautir, bæði þær sem nú þegar er hægt að nota á Íslandi og þá opnar hún möguleika í Norður-Noregi, eins á Grænlandi þar sem eru styttri brautir en víðast hvar annars staðar.

Hörður Guðmundsson hafði ekki trú á því að mikið verði flogið í dag, en að baki eru margar flugferðirnar á löngum ferli. Nú flýgur hann bara sér til skemmtunar á Cessna-vél. Á Morgunvaktinni lýsti Hörður upphafsárunum, kynnum af Hannibal Valdimarssyni og fleiri pólitíkusum. Hannibal útnefndi Hörð sem hirðflugmann og beitti sér fyrir því sem ráðherra að þetta nýja flugfélag kæmist á flug. Og enn fljúga vélar Ernis og framtíðin er björt með vaxandi ferðaþjónustu.

 

odinnj's picture
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi