Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Flugeldasýning frá Sturlu Atlas

Sturla Atlas (skjáskot úr tónlistarmyndbandi við lagið San Francisco)
 Mynd: Sturla Atlas - YouTube

Flugeldasýning frá Sturlu Atlas

01.02.2016 - 12:29

Höfundar

„Við viljum helst ekki gefa mikið upp um hvernig þetta verður. Það er t.d. ekki búið að negla endanlega hverjir verða á sviðinu en ég get lofað að þetta verður mikið show. Sannkölluð flugeldasýning“ segir tónlistarmaðurinn Sturla Atlas en hann kemur fram á fyrra undanúrslitakvöldi Söngvakeppninnar í Háskólabíó.

Sturla Atlas, en það er listamannsnafn Sigurbjartar Sturlu Atlasonar, hefur slegið í gegn á íslensku tónlistarsenunni og er án efa einhver ferskasti ungi tónlistarmaðurinn í dag. Hann vinnur gjarnan með félögum sínum Jóhanni Kristófer Stefánssyni og Stefson bræðrunum Loga Pedro og Unnsteini undir hattinum 101 Boys.

„Ég get staðfest að lagið sem við vinnum með er Gleðibankinn. Svo vil ég eiginlega ekki segja meira“ segir Sigurbjartur og er dularfullur að vanda. Við bíðum spennt að sjá hvað gerist í Háskólabíói laugardagskvöldið 6. febrúar.

Á þessu sama kvöldi frumflytur Páll Óskar hið nýja afmælislag Söngvakeppninnar, "Við vinnum þetta fyrir fram".

Miðasala á undanúrslitin og lokaæfingu úrslitanna í Laugardalshöll er á tix.is