Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Flugeldar vekja óhug hjá flóttamönnum

05.12.2015 - 12:29
Flugeldar um áramót geta orðið flóttamönnunum frá Sýrlandi erfiðir, segir bandarískur prófessor sem er hér á landi til að veita íslenskum sveitarfélögum ráðgjöf við mótttöku flóttafólks. Hún segir að Íslendingar hafi tækifæri til að gera betur en aðrir.

Nicole Dubus, prófessor og sérfræðingur í móttöku flóttafólks, er hér á landi í boði Fulbright-stofnunarinnar og velferðarráðuneytisins til að aðstoða við undirbúning móttöku flóttamannanna. Von er á þeim rétt fyrir jól og setjast þeir að á Akureyri, í Kópavogi og Hafnarfirði. Dubus segir að sumir telji að það taki flóttafólk tvö ár að koma sér fyrir.

„Það sem við höfum uppgötvað í Bandaríkjunum, þar sem við höfum tekið við flóttamönnum áratugum saman, er að sá sem er einu sinni flóttamaður er ávallt flóttamaður. Þetta er ævilangt verkefni."

Fólkið hafi nauðugt yfirgefið landið sitt og syrgir það, ekki bara í eitt ár eða tvö heldur alla ævi. Sumir þeirra hafi misst ættingja sína og aleigu í stríðsátökunum. Áramótin geta því orðið þeim erfið.

„Hávaðinn í flugeldunum getur kveikt ýmsar tilfinningar. Þau skilja að þau eru ekki á vígvelli. Þegar þau heyra lætin hugsa þau um fjölskyldur sínar og ættingja sem hafa fallið eða horfið."

Dubus segir að flóttamenn beri ekki allaf þakklæti utan á sér. 

„Það þýðir ekki að þeir séu ekki þakklátir. Þeir hafa orðið fyrir svo miklum áföllum og missi og eru að upplifa svo margt nýtt að þeir eru uppfullir af kvíða. Það er ekki víst að þeir brosi eða lýsi yfir þakklæti en þeir eru þakklátir og það besta sem þið getið gert er að vita að þið gerið rétt, þótt flóttamennirnir geti ekki sýnt það strax."

Dubus telur að Íslendingar hafi umfram aðrar þjóðir sem hún hefur séð, mikla burði til að gera þetta betur en önnur ríki. 

„Þið eruð nýbyrjuð, landið er lítið og þið hafið tekið svo hlýlega á móti fólkinu að þið gætuð gert það sem öðrum ríkjum hefur ekki tekist."
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV