Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Flug á öllum flugvöllum stöðvast

31.03.2014 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd:
Búast má við mikilli röskun á flugi og stöðvun þess á öllum flugvöllum landsins að morgni þriðjudagsins í næstu viku þegar rúmlega 400 starfsmenn hjá Isavia fara í verkfall. Hafi ekki samist verður verkfallið það fyrsta af 3 tímabundnum verkföllum í apríl en í lok apríl er boðað allsherjarverkfall.

Á þriðjudagsmorguninn eru 20 komur og brottfarir hjá Icelandair og Wow á Keflavíkurflugvelli. Stærstur hluti þeirra sem fara í verkfall eru flugöryggisverðir, það er þeir sem sinna vopnaleit og eftirliti, þá eru björgunar- og viðbragðsaðilar eins og slökkviliðsmenn, skrifstofufólk og fluggagnafræðingar.

Kristján Jóhannsson formaður Félags flugmálastarfsmanna ríkisins segir að allt muni lamast. Þetta taki gildi frá kl. 4 um morguninn til kl. 9.

„Þetta mun þá, ef af verður, nú höfum við ennþá tíma til að semja, ef af verður þá mun þetta hafa þau áhrif að flug stoppar,“ segir Kristján. „Það getur ekki lent og það getur ekki tekið á loft bæði hér í Keflavík og annars staðar á landinu. Þannig að hér mun allt lamast og allt stoppa.“

Kristján segir að félagmenn vilji fyrst og fremst fá umræðu um þá kröfugerð sem hafi verið lögð fram. Það sé óyndisúrræði að hóta verkfalli en þegar ekki sé hlustað á fólk þá sé þetta gert.