Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Flottar hugmyndir í ófullburða Álfahöll

Mynd: Hörður Sveinsson / leikhusid.is

Flottar hugmyndir í ófullburða Álfahöll

11.04.2017 - 10:56

Höfundar

Leikritið Álfhöllin iðar af góðum hugmyndum sem er hins vegar ekki búið að vinna nógu mikið til að þær komi heim og saman í heildstæðri sýningu, að mati gagnrýnenda Menningarinnar í Kastljósi.

Leikritið Álfahöllinn í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu á laugardag. Verkið er samið í samstarfi við Jón Atla Jónasson og leikhópinn. Í verkinu er stiklað á stóru yfir 67 ára sögu Þjóðleikhússins með ærslafullum endurgerðum á brotum á mörgum af þekktustu uppfærslum hússins í gegnum tíðina en í seinni hluta verksins fer verkið að hverfast um fátækt á Íslandi.

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Sveinsson - leikhusid.is

Greinilegur tímaskortur

Hlín Agnarsdóttir og Snæbjörn Brynjarsson fjölluðu um verkið í Menningunni í Kastljósi. Þau byrjuðu á að nefna að æfingartími verksins hefði verið stuttur og það bæri þess merki. „Það ægir mörgu saman,“ segir Snæbjörn. „Við fáum í rauninni íslenska þjóðarsál, sem er kannski viðeigandi, því leikhúsið er spegill samfélagsins að sumra mati.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kastljós
Hlín Agnars og Snæbjörn Brynjarsson.

Hann segir fátæktina áberandi sem þema, jafnvel í fyrri hlutanum þar sem gamlar sýningar eru rifjaðar upp. „Við höfum þarna Fjalla-Eyvind og Sjálfstætt fólk, sem fjalla um það. Það má líka segja að Stundarfriður fjalli um Íslendinga sem eru að bugast í kapítalísku samfélagi. Að sumu leyti gengur það en að öðru leyti mætti segja að þetta væru tvær leiksýningar plús gjörningur. Á köflum nær maður ekki öllum tengingum og stíllinn breytist. Þótt þarna séu margar góðar hugmyndir — alveg frábærar hugmyndir  — finnur maður að þetta er gert á síðustu metrunum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Hörður Sveinsson - leikhusid.is

Seinni hlutinn drekkir þeim fyrri

Eftir hlé tekur sýningin vendingu með langri einræðu ÓIafíu Hrannar Jónsdóttur um fátækt. „Eftir hlé er eins og það taki við nýtt leikrit,“ segir Hlín. „Allt í einu erum við komin inn í drama, inn í nútímann, inn í þjóðfélagslega umfjöllun sem er búin að vera mjög áberandi, það er fátækt á Íslandi. Ein leikkona ber uppi þá umfjöllun, og það atriði verður virkilega langdregið og teygt. Þar hefði höfundur, finnst mér, þurft að koma til skjalanna.“ Hún segir kominn tími til að skrifa alvöru verk um fátækt á Íslandi.  „Mér fannst þau leggja upp með að spyrja spurninga um til hvers þetta leikhús er. En svo kemur þetta fátæktarþema inn og það er svo mikill þungi í því að það drekkir hinni sögunni. [...] Mér finnst þetta ekki ná að mynda eina held.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kastljós

Þau hrósa bæði leikhópnum, sviðsmynd og búningum og Snæbjörn telur að þótt verkið sem birst hafi á sviðinu á laugardag sé ekki fullklárað bindi hann enn vonir við það. „Mér fannst sýningin mjög skemmtileg og held að hún gæti náð saman á næstu vikum ef þau halda áfram að þróa hana.“ 

Tengdar fréttir

Innlent

6107 leikföng fyrir 6107 fátæk íslensk börn

Menningarefni

Sagði sig frá Söngvum Satans