Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Flóttamannavandinn í Grikklandi vex hratt

18.08.2015 - 16:26
epa04887415 Greek police attempt to organize migrants seeking refugee status at the police station in Kos on the Greek island of Kos, Greece, 17 August 2015. The Greek island is struggling with a major influx of refugees and migrants amidst the financial
Lögreglu og flóttafólki lenti saman á eyjunni Kos á dögunum.  Mynd: EPA
Hátt í 21 þúsund flóttamenn komu til Grikklands í síðustu viku. Fjöldinn hefur vaxið stöðugt að undanförnu og er orðinn verulegt vandamál.

Talsmaður flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna segir að fjöldi þeirra sem kom til Grikklands í síðustu viku sé tæpur helmingur þeirra sem flúði til landsins allt árið í fyrra. Frá síðustu áramótum til 14. ágúst voru þeir ríflega 158 þúsund og eru núna komnir yfir 160 þúsund. Flestir koma þeir frá Tyrklandi yfir Eyjahaf til grísku eyjanna. Rúmlega átta af hverjum tíu koma frá Sýrlandi, þar sem grimmileg borgarastyrjöld geisar. Um fjórtán prósent eru frá Afganistan og þrír af hverjum hundrað frá Írak. Til skamms tíma var straumurinn aðallega frá Líbíu yfir Miðjarðarhaf til Ítalíu, en síðustu daga virðist hafa dregið aðeins úr honum. Aðstæður á grísku eyjunum til að taka við flóttafólkinu eru afar bágbornar. Margir þurfa að sofa úti undir berum himni við óþrifalegar aðstæður. Í síðustu viku sauð upp úr á eyjunni Kos þar sem lögreglumenn réðu ekki við ástandið.

Sérfræðingar Evrópusambandsins og Sameinuðu þjóðanna segja að straumurinn til Evrópu sé að verða eitt mesta flóttamannavandamálið sem upp hefur komið frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Þjóðverjar tilkynntu til dæmis í dag að þeir byggjust við því að taka á móti 750 þúsund flóttamönnum á þessu ári. Samkvæmt fyrri áætlunum stjórnvalda var búist við 350 þúsundum. Að sögn landamæraeftirlits Evrópusambandsins komu 107.500 flóttamenn til ESB ríkja í síðasta mánuði.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV