Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Flóttamannahjálp sparar ríkinu fé

16.09.2015 - 21:50
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Tekjur af verkefnum Landhelgisgæslunnar í tengslum við aukin flóttamannastraum til Evrópu, hafa gert Gæslunni kleift að halda úti starfsemi sinni, þrátt fyrir lægri framlög úr ríkissjóði. Hagnaður fyrstu tveggja áranna myndi duga til að dekka kostnað við 100 flóttamenn í heilt ár.

Í umræðum um hugsanlega móttöku Íslendinga á flóttamönnum, vegna fjölgunar þeirra undanfarin misseri hefur kostnaði við komu þeirra oft verið velt upp. Árið 2013 var umræða á Alþingi um þessi mál og þá sagði utanríkisráðherra; meðal annars.

„Þetta er einfaldlega þannig að það kostar peninga að taka við flóttamönnum, hvort sem við mundum vilja taka við tveimur eða tíu þá kostar þetta allt fjármuni.“

Áhafnir varðskipanna Týs og Ægis auk áhafnar gæsluflugvélarinnar TF-SIF hafa undanfarin fimm ár aðstoðað við landamæraeftirlit í Miðjarðarhafi og áhafnir þeirra unnið óumdeilt þrekvirki við björgun hundruða flóttamanna sem lagt hafa á hafið í von um að komast yfir til Evrópu. Á þessum fimm árum hafa verkefni gæslunnar á þessu svæði orðið stærri og stærri hluti, ekki bara erlendra verkefna Gæslunnar heldur verkefna hennar í heild. Svo mjög að jafnvel samtök sjómanna hér á landi og samtök útgerðarmanna hafa mótmælt því að björgunartæki Gæslunnar skuli ekki vera til staðar við Ísland, á sama tíma.

"Ástæða þess að við erum í þessum verkefnum er sú að við erum að ganga í gegnum þrengingar eins og aðrir hér í þessu landi og til þess að forða því að þurfa að segja upp fólki og leggja tækjum þá erum við þarna niður frá og jafnframt til þess að ná okkur í örlítinn pening til þess að sinna brýnustu björgunarþörf, sem að er þá númer eitt í þyrlum og númer tvö að geta haldið úti í það minnsta einu skipi hér við Íslandsstrendur," sagði Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, í viðtali við fréttastofu árið 2013.

Í ársskýrslu Landhelgisgæslunnar sem kom út í fyrra segir „Landhelgisgæslan hefur þurft að draga saman reksturinn um rúmlega 40% á fimm árum en áhersla hefur verið lögð á að hlífa eftir bestu getu öryggis,- neyðar- og björgunarstörfum stofnunarinnar.“

Síðar í skýrslunni segir svo:

„Í því skyni að afla tekna til reksturs Landhelgisgæslunnar hefur stofnunin frá árinu 2010 sinnt verkefnum erlendis, m.a. fyrir Landamærastofnun Evrópu og Evrópusambandið (EU).“

Samkvæmt ársskýrslu Landhelgisgæslunnar voru samanlagðar tekjur hennar af erlendum verkefnum á þessum fjórum árum um þrír og hálfur milljarður króna, að stærstum hluta vegna verkefna fyrir landamærastofnun Evrópu. Nákvæm útlistun á skiptingu þessara tekna liggur ekki á lausu, nema fyrir tvö þessara ára, 2010 og 2011.  Þau tvö ár voru tekjur af verkefnum Gæslunnar vegna verkefna fyrir landamærastofnun Evrópu 1,3 milljarðar króna. Hreinar tekjur Gæslunnar af þessum verkefnum voru tæpur hálfur milljarður króna, eða 462 milljónir króna, á þessum tveimur árum, samkvæmt sundurliðun Gæslunnar sem birt var í skýrslu Ríkisendurskoðunar árið 2012. Þá var hagnaður vegna erlendra verkefna Gæslunnar 2010 og 2011, sagður nema 680 milljónum króna. Það er tekjur að frádregnum kostnaði.

Ekki liggur fyrir samskonar sundurliðun á tekjum næstu tveggja ára, 2012 og 13, en heildartekjur af verkefnum erlendis á því tímabili námu einum og hálfum milljarði, en þá var hlutfall verkefna fyrir landamærastofnun Evrópu hærra en árin á undan. Því er ekki fráleitt að ætla að hreinar tekjur, að frádregnum kostnaði hafi verið svipaður og árin tvö þar á undan. Þá eru ótaldar tekjur Gæslunnar af verkefnum  á Miðjarðarhafi vegna á árinu 2014 og það sem af er 2015.

Að sögn forstjóra Landhelgisgæslunnar hefur samskonar yfirlit og birt var í skýrslu Ríkisendurskoðunar árið 2012 ekki verið tekið saman fyrir tímabilið eftir 2011. Í svari til Kastjóss í dag sagði hann afskriftir ekki inni í þeim tölum sem birtar voru í svarinu til Ríkisendurskoðunar.

Því er ekki óvarlegt að ætla að hreinar tekjur Landhelgsigæslunnar af verkefnum fyrir landamærastofnun Evrópu, á miðjarðarhafi, séu kominn vel yfir einn milljarð króna frá árinu 2010. Tekjur sem tryggt hafa rekstur, skipa- og flugflota og mannafla þessarar mikilvægu stofnunar og í leiðinni sparað ríkissjóði og skattgreiðendum háar fjárhæðir, vegna niðurskurðar og afleðinga óhagstæðrar gengisþróunar á starfsem Landhelgisgæslunnar, eins og lýst er í ársskýrslu ársins 2013:

„Lækkandi fjárframlögum hefur verið mætt á ýmsan hátt, meðal annars með verkefnum erlendis. Landhelgis gæslan hefur lagt til bæði skip og flugvél til verkefna við landamæra eftirlit fyrir Evrópusambandið og með því móti hefur verið mögulegt að halda tækjum í gangi og í rekstri.“

Í því skyni að afla tekna til reksturs Varðskip og flugvélar Landhelgisgæslunnar erlendis 2011-2013 Landhelgisgæslunnar hefur stofnunin frá árinu 2010 sinnt verkefnum erlendis, m.a. fyrir Landamærastofnun Evrópu og Evrópusambandið (EU). 

Velferðarráðherra sagði nýverið í Kastljósi að samkvæmt mati ráðuneytisins væri kostnaður við hvern flóttamann um 4-5 milljónir króna ár hvert. Ef miðað er við hagnað Gæslunnar af verkefnum hennar við landamæraeftirlit í Miðjarðarhafi árin 2010 og 11, sem nýttust til rekstrar og spöruðu ríkissjóði samsvarandi upphæð, samsvarar hún kostnaði við 100 flóttamenn í eitt ár.

 

helgis's picture
Helgi Seljan
Fréttastofa RÚV