Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Flóttabörn sáu snjókomu í fyrsta sinn

07.03.2018 - 22:04
Sýrlensk hjón sem komu til Flateyrar í dag segja að Ísland sé fallegt og að þau muni venjast kuldanum. Níu sýrlenskar og írakskar fjölskyldur eru nú komnar til landsins og hefja nýtt líf á Austfjörðum og Vestfjörðum.

Seinni hópurinn kom til landsins í gær og í dag lenti hluti hans á Ísafirði rétt fyrir hádegi. Það eru þrjár fjölskyldur, 14 manns sem þurftu að flýja frá heimilum sínum í Sýrlandi vegna stríðsátaka. Fólkið hefur búið í Jórdaníu í lélegu húsnæði og án ríkisfangs. Þau Ro'aaTojan og dætur þeirra voru þreytt eftir ferðalagið. „Við erum mjög ánægð að vera komin til Íslands og okkur líkar vel við Íslendinga. Við vonum að við verðum hamingjusöm hér við öruggar aðstæður. Við þökkum Íslendingum fyrir að taka á móti okkur. Landið er fallegt en kalt. En við venjumst veðrinu ef guð lofar,“ sagði Tojan Al Nashy frá Sýrlandi.

Sérstök móttaka var haldin fyrir fólkið á Ísafirði áður en það hélt til nýrra heimila sinna á Flateyri. Seinni partinn í dag kom svo sjö manna íröksk fjölskylda með flugi til Egilsstaða en hún sest að á Reyðarfirði. Þangað kom líka íröksk fjölskylda í síðustu viku og tvær aðrar fjölskyldur til Norðfjarðar. „Það sem er fram undan eru heilsufarsskoðanir, það er númer eitt, tvö og þrjú. Og skráning inn í landið og að sýna þeim nýjar íbúðir og ný heimkynni,“ sagði Rakel Kemp Guðnadóttir, verkefnisstjóri móttöku flóttafólks í Fjarðabyggð.

Börnin í fjölskyldunni voru spennt þegar þau stigu út úr flugvélinni. Þau höfðu aldrei áður séð snjókomu. „Fyrst var ég spennt að komast til öruggs lands en nú er ég meira spennt að sjá snjóinn í fyrsta skipti,“ sagði Melak Muayad, frá Írak. „Ég er mjög ánægð að vera komin hingað og ég er líka mjög spennt að sjá snjóinn,“ sagði Rawan Muayad systir hennar.  

Nú er allur hópurinn sem stjórnvöld buðu frá Írak og Sýrlandi kominn til landsins, samtals 42 kvótaflóttamenn. Og 10 til viðbótar koma frá Úganda síðar í mánuðinum.