Flokksráðsfundur VG vill 30 stunda vinnuviku

14.10.2018 - 08:07
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Hvatt er til þess að vinnuvikan verði stytt í 30 stundir í ályktun flokksráðsfundar Vinstri grænna sem fram fór á föstudag og laugardag í Kópavogi. Í fréttatilkynningu segir að á annað hundrað manns hafi sótt fundinn.

„Flokksráðsfundur hvetur verkalýðshreyfinguna og þingmenn Vinstri grænna til þess að styðja allar aðgerðir sem stefna að því takmarki og minnir á lagafrumvarp sem nú liggur fyrir þinginu um 35 tíma vinnuviku,“ segir í ályktuninni. Í henni er tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuviku fagnað. Sýnt hafi verið fram á að stytting vinnuvikunnar leiði til aukinna lífsgæða, betri framleiðni og færri veikindadaga. „Styttri vinnuvika gagnast sérstaklega fjölskyldufólki með lágar tekjur, sem þyrfti þá að vinna minna til þess að ná endum saman.“

Telja að stytting vinnuviku stuðli að jafnrétti

Flokksráðsfundurinn nefnir einnig í ályktuninni að aukning lífsgæða með styttingu vinnuviku gæti leitt til þess að færri brenni út í starfi, verði óvinnufærir og þurfi að velferðarþjónustu að halda. Þá geti stytting vinnuvikunnar einnig stutt við kynjajafnrétti þegar kemur að vinnu innan sem utan heimilis, þar sem algengara sé að konur séu í hlutastarfi en karlar og sinni heimili með fram vinnu. „Það að stytta vinnuvikuna eykur líkur á að konur og karlar (pör) vinni jafnlanga vinnuviku og að heimilisstörf og umönnun barna verði þá með jafnara móti.“

Vilja rifta varnarsamningi við Bandaríkin

Flokksráðsfundurinn ályktaði einnig um friðarmál og skorar á Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formann þjóðaröryggisráðs Íslands að beita sér fyrir endurskoðun þjóðaröryggisstefnu Íslands með friðarmál í forgrunni. Í ályktuninni segir að öryggi landsins eigi ekki að snúast um að viðhalda heimsmyndinni eins og hún sé, „með drottnun Vesturlanda, hernaðarlegum íhlutunum þeirra um allan og vopnakapphlaupi“. Þá er lagt til að varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna verði sagt upp, hann þjóni einungis hagsmunum Bandaríkjanna, að mati flokksráðsfundarins.

Á fundinum var einnig ályktað um hvalveiðar sem ráðið leggst gegn, kjaramál, skyldur sveitarfélaga, breytt neyslumynstur í þágu náttúru og mannréttinda og félagsleg undirboð á vinnumarkaði. Alþingi og ríkisstjórn eru í ályktun hvött til að gera nú þegar nauðsynlegar breytingar á ákvæðum laga um keðjuábyrgð og lög um starfsmannaleigur, setja ný lög ef þurfa þykir og efla eftirlitsstofnanir. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi