Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Flokkarnir tveir pólitískt laskaðir

05.12.2018 - 09:27
Mynd: RÚV / RÚV
Miðflokkurinn og Flokkur fólksins eru báðir talsvert pólitískt laskaðir, segir Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur og dósent í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri. Hann var í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun og ræddi um Klaustursmálið.

„Þetta er mikill pólitískur skellur, fyrir utan þann siðferðislega skell og það að þarna er átta prósent Alþingis að stimpla sig sem plebba, með plebbaskap. En þeir eru í þeirri stöðu að þeir eru þjóðkjörnir. Þeir eru ráðnir af kjósendum. Það er undir hverjum og einum þingmanni að taka ákvörðun um hvað þeir gera,“ segir Birgir.

Hann segir það skipta máli hvað þetta mál þýðir fyrir pólitíkina. „Það augljósasta í þessu er að Miðflokkurinn og Flokkur fólksins eru báðir talsvert pólitískt laskaðir og starfsemi þeirra inn á þingi hlýtur að markast á því. Tveir þingmenn Miðflokksins hafa kosið að taka sér leyfi og fara í þennan „pólitíska fjörbaugsgarð“, hverfa í burtu í ákveðinn tíma og athuga hvort hlutirnir róist. Ég held að það muni gerast. Við erum á fyrsta ári þessa kjörtímabils, og að því gefnu að stjórnin haldi velli, þá held ég að rykið eigi eftir að setjast. Þegar fram í sækir þá muni þetta ekki verða það stórmál sem það er í dag.“

Á síðustu árum hafa komið upp pólitísk hneykslismál á Íslandi sem hefur orðið til þess að gengið hefur verið til Alþingiskosninga. Birgir talar sérstaklega um Panamaskjölin og mál tengd föður Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Kosið var til Alþingis haustin 2016 og 2017.

„Punturinn í þessum tilfellum er að þá líða aðeins nokkrir mánuðir áður en gengið er til kosninga. Í kosningunum eru þessi mál orðin algört aukaatriði. Það er alveg óháð því hvernig málin eru efnislega. Í umræðunni verða þau undir öðrum atriðum,“ segir Birgir. Hann segir það ráðast af viðbrögðum við Klaustursmálinu hvort það eigi eftir að verða lykilatriði í næstu kosningum.

Siðanefnd Alþingis hefur við kölluð saman í fyrsta sinn vegna Klaustursmálsins. Birgir telur að nefndinni eigi eftir að reynast flókið að komast að afgerandi niðurstöðu um mál þessara sex þingmanna sem sátu að sumbli á Klaustri og níddu skóinn af samstarfsfólki sínu og öðrum.

„Ef þú skoðar siðareglurnar þá er ég ekkert viss um það að það sé mjög auðvelt fyrir þessa utan að komandi siðanefnd að fella einhverja stóra dóma. Ef hún ætlar að fylgja siðareglunum þá þarf svolitla túlkun á einstaka greinum reglanna til þess að ná utan um þetta mál. Ég held að það sé ýmislegt sem eigi eftir að flækja málin og fletja það út miðað við þá heift sem er í samfélaginu í dag,“ segir Birgir Guðmundsson.