Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Flókin ráðgáta hvalanna í Kolgrafafirði

13.08.2018 - 19:13
Mynd úr safni - Mynd: Haukur Páll Kristinsson / Haukur Páll Kristinsson
Ekki er til nein ein einhlít skýring á því hvers vegna grindhvalavaðan sem nú er innan brúar í Kolgrafafirði leitaði þangað. Edda Elísabet Magnúsdóttir doktor í hvalafræðum og aðjunkt við Háskóla Íslands, segir að nokkrar skýringar geti legið að baki.

Útsjávarhvalir á landgrunni og við land

„Þetta eru útsjávarhvalir og þeirra náttúrulegu heimkynni eru djúpsjór úti fyrir landgrunninu og rétt við landgrunnið. En þeir leita oft inn á landgrunnið og það er oft á þessum árstíma sem að aðalfæða þeirra, beitusmokkurinn, leitar inn til lands og það er mjög sennilegt að það sé drifkrafturinn í því því að hvalirnir séu að koma inn á landgrunnið,“ segir Edda Elísabet í samtali við Spegilinn. „En þegar þeir koma inn á landgrunnið og upp að ströndinni, sem er ekki þeirra eðlilega búsvæði, þá leynast þar ýmsar hættur fyrir svona djúpsjávarhvali sem nýta sér bergmálsmiðun til rötunar. Bergmálsmiðunin virkar þannig að hvalirnir gefa frá sér hljóðpúls og hann endurvarpast til baka. Þetta gefur þeim mynd af umhverfi þeirra. Þegar þeir koma inn á landgrunn þar sem er aflíðandi sandur þá virðist vera að í þeim aðstæðum verði minna endurvarp hljóðsins og að þeir tapi frekar áttum.“

Fjölskylduhópar sem synda saman

„Nú er grindhvalurinn einna þekktastur fyrir stóra og samheldna hópa. Þetta eru fjölskylduhópar, náskyld dýr sem lúta stjórn einnar ættmóður. Ef einhver veikist til dæmis þá er hann ekki skilinn eftir. Það gerist oft ef að dýr er veikt eða veikburða að það missir máttinn og straumarnir leiða dýrið inn að grynningum og oft gerist það að hópurinn kemur með. En ef þeir tapa áttum og sérstaklega ef að forystudýrið tapar áttum þá er voðinn vís. Og það er líklegast eitthvað í þessum dúr sem er að gerast í Kolgrafafirði. Þarna eru sandfjörur, aflíðandi botn og sterkir straumar. Það er margt sem getur spilað þarna inn í. Vissulega getur annað en fæða leitt hvalina inn að landi. Oft hafa einhverjir snöggir viðburðir átt sér stað eins og framkvæmdir sem að gefa af sér mikla hljóðmengun. Eða jafnvel kafbátar við æfingar sem gefa frá sér sterka hljóðpúlsa sem að hvalir forðast og hræðast enda eru þessi hljóð verulega sterk í hafinu og berast langt. Þetta verður stundum til þess að djúpsjávarhvalir hrökklast inn á grynningar. Þetta er kannski svipað og hefur verið að gerast með andarnefjurnar sem voru ansi tíðar hér við land fyrir stuttu.“

Nauðsynlegt að reka þá lengra út

En hvað er til ráða í Kolgrafafirði. Þarf að reka þá lengra út?

„Það er voðalega erfitt að eiga við þetta af því að það er mjög algengt þegar hvali hefur rekið á land, og þeir eru teknir eða reknir út aftur, að þá rekur þá aftur á land. Þá er líklegast að þeir láti undan straumum eða hafa mögulega gefist upp. Það er erfitt að segja. Í þessu tilfelli myndi ég segja að það væri nauðsynlegt að reka þá lengra út já. Nú þekki ég ekki nákvæmlega hver straumurinn er þarna núna og líklega spila sjávarföllin inn í, en þau eru verulega sterk þarna. En ég hugsa að öruggast væri, ef að hægt er, að reka þá eins langt út og hægt er. Þá ná þeir mögulega öðrum straumum og komast kannski aftur út í dýpri svæði og út úr þessum sandgrynningum.“ 

700 þúsund grindhvalir

Íslendingar tengja nú grindhvali sennilega oftast við Færeyjar. Eru þeir algengir hér við land?

Grindhvalurinn er jú vissulega djúpsjávarhvalur og verður ekki oft á vegi okkar dags daglega. Þeir sjófarendur sem fara lengra út á sjó sjá tíðum stórar torfur af þeim. Grindhvalurinn er vissulega einn þeirra hvala sem er algengur við Ísland. Heimasvæði hans er gríðarlega stórt þó svo ekki sé búið að kanna hvaða samsetning er hér við Ísland og hvort þetta séu sömu hvalir og við Færeyjar. En það er mjög líklegt að þetta séu sömu hvalir og eru við austurströnd Bandaríkjanna. Í norður Atlantshafi eru talin vera um 700 þúsund dýr í mörgum stofnum. Grindhvalir eru líklega ansi algengir úti fyrir landgrunninu, enda er aðal fæða grindhvalsins smokkfiskur og þá beitusmokkurinn sem er algengur hér um slóðir.“

Ættmóðirin stjórnar

„Grindhvalurinn er höfrungategund og sú næststærsta við Ísland og vissulega hluti af þeirri fjölbreyttu hvalafánu sem við höfum umhverfis landið. Þetta er fjölskyldudýr og það er mjög merkilegt. Minnsta fjölskyldueiningin er móðir og afkvæmi hennar. Algengasta stærð hjá móðurinni er svona fjögur til fimm afkvæmi í nánustu fjölskyldueiningunni. Svo eru frænkur sem eignast síðan sín afkvæmi og þær halda oft saman. Oft er það ættmóðirin, eins og amman eða langamman, sem að leiðir hópinn. Svo deyr hún og næsta tekur við. Þetta þekkist hjá sumum spendýrum og einna best hjá grindhvalnum og háhyrningnum, sem báðir eru höfrungar,“ segir Edda Elísabet.

Sennilega gáfuð dýr

„Þetta eru tegundir sem vegnar mjög vel á alþjóðavísu. Þetta virðist vera mjög hentug samsetning eða hentugur lifnaðarháttur að lifa og búa með sínum nánustu vegna þess að þá viðheldurðu þínum genum og kemur þeim áfram. Þarna áttu þinn örugga hóp sem hjálpast að ef að hætta steðjar að, hjálpast að í fæðuleit og gerir þessa tegund verulega hæfa.  En til að geta lifað í svona flóknum og þéttriðnum fjölskylduhópum og viðhalda tengslum út ævina þá krefst það ákveðinnar heilastarfsemi. Þetta eru verulega vel gefin dýr. Maðurinn þarf ákveðna heilastarfsemi til að lifa í okkar samfélögum. Það er ekkert ólíkt með þessa hvali og kannski gefur þetta þeim ákveðið forskot. Þeir virðast hafa þó nokkrar gáfur, ef maður má orða það þannig. Þær virðast gefa þeim þessi tækifæri að lifa í þessum góðu hópum sem hjálpast að út ævina.“

Kunna að forðast úrkynjun

Er engin hætta á of nánum skyldleika, úrkynjun?

„Það er mikilvægt að það verði ekki úrkynjun því þá er tegundin fljót að hverfa af vettvangi. Hvalirnir virðast á einhvern hátt meðvitaðir um það, hvernig sem þeir fara að því. Karldýrin, bræður og frændur, eru saman í þessum fjölskylduhópum. En þeir hverfa þegar tími er kominn til þess að makast og fjölga sér. Þeir fara þá í aðra hópa. Stundum er það þannig að fjölmargir hópar sameinast. Smæsta fjölskyldueiningin er fjögur til fimm dýr, en að jafnaði eru þau saman kannski ellefu jafnvel upp í tuttugu. Hvalirnir í Kolgrafafirði voru 30. Þeir geta verið upp undir 200 saman. Þá eru oft margar fjölskyldur, sem eru ekki endilega skyldar, komnar saman. Þá gefst tækifæri á smá partíi og kynnum til þess að fjölga kyninu. En svokölluð úrkynjun innan hópsins er verulega sjaldgæf. Þessir hvalir hafa verið rannsakaðir mjög mikið og skyldleiki innan hópa sérstaklega mikið í tengslum við veiðarnar í Færeyjum. Hvalirnir kunna að forðast of mikinn skyldleika.“

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV