Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Flóð undan Vatnajökli

13.07.2011 - 11:02
Vatnsborð í Hágöngulóni hefur hækkað um sjötíu sentimetra í nótt og morgun.

Ástæðan er talin vera jökulhlaup úr Köldukvíslarjökli, í vestanverðum Vatnajökli. Hjörleifur Sveinbjörnsson, jarðfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að órói hafi komið fram á jarðskjálftamælum á Grímsfjalli og Skrokköldu, en sá órói sé ekki undanfari eldgoss, heldur stafi af umbrotum vegna hlaups.

Hjörleifur segir ekki ljóst hvaða leið hlaupið hefur komið; það gæti hafa komið niður farveg Sveðju, eða Köldukvíslar, og niður í Hágöngulón. Mælar Landsvirkjunar við lónið hafa sýnt verulega hækkun á vatnsborði þess. Hjörleifur segir ekki ástæðu til að búast við hamfaraflóði.

Samkvæmt tilkynningu frá Veðurstofunni kom fram órói í um 45 mínútur snemma í morgun, og annar svipaður atburður mældist í gær. Síðan um miðnætti hefur dregið úr þessum óróa.