Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Flóð og útgöngubann í kjölfar fellibyls

21.09.2017 - 02:21
epaselect epa06216751 View of the damages caused after the passage of Hurricane Maria, in San Juan, Puerto Rico, 20 September 2017. The powerful hurricane Maria left severe damages in the infrastructures and houses of Puerto Rico during the six hours in
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Fellibylurinn María þokast nú frá ströndum Púertó Ríkó eftir að hafa valdið þar gríðarlegri eyðileggingu. Fregnir af manntjóni hafa ekki borist enn sem komið er, en símasamband, fjarskipti og samgöngur eru meira og minna í lamasessi svo fréttir berast hægt og illa. Og þær fréttir sem þó berast eru ekki góðar. Varað er við miklum og hættulegum flóðum og útgöngubann er í gildi.

Abner Gómez, yfirmaður almannavarna á eynni, segir að fárviðrið hafi nánast gjöreytt öllu sem það dundi á. „Þegar við komumst aftur út fyrir hússins dyr, þá munum við sjá að eyjan okkar hefur verið lögð í rúst," hefur dagblaðið El Nuevo Dia eftir Gómez.

Varað er við miklum og hættulegum flóðum í kjölfar stormsins, annars vegar skyndiflóðum vegna úrhellis og vatnavaxta í ám og hins vegar við skæðum sjávarflóðum. Á twittersíðu bandarísku sjónvarpsfréttastöðvarinnar NBC birtist þetta myndskeið frá bænum Guyama, á suðausturströnd Púertó Ríkó, þar sem götur bæjarins breyttust í beljandi og aurug stórfljót:

Tvær radarstöðvar bandarísku veðurstofunnar eyðilögðust þegar María hamaðist á þeim. Nokkurnveginn allir landsmenn, 3.5 milljónir talsins, eru án rafmagns.

Útgöngubann gildir á milli klukkan 18 síðdegis til 6 að morgni að staðartíma, og verður þessi háttur hafður á fram á laugardagsmorgun hið minnsta. Meginástæðurnar eru tvær. Annars vegar er fólki margvísleg hætta búin á óupplýstum götum borga og bæja eftir að skyggja tekur, þar sem vatn flæðir víða, rafmagnskaplar liggja niðri og alls kyns brak er á víð og dreif. Hins vegar er þetta gert til að draga úr líkum á innbrotum og gripdeildum, en þúsundir heimila og fyrirtækja standa auð þar sem fjöldi fólks leitaði skjóls í neyðarskýlum eða hjá vinum og ættingjum á öruggari slóðum. 

María skilur líka eftir sig slóð eyðileggingar á eyjunni Dóminíku þar sem hún fór yfir á mánudag. Þar létust hið minnsta 7 í hamförunum. 
Hún flokkast nú sem annars stigs fellibylur, en gæti átt eftir að eflast á ný á leið sinni yfir hlýjan sjóinn til norðurstrandar Dómíníska lýðveldisins og Haítís. Þaðan er áætlað að hún taki stefnuna norður í Atlantshaf.