Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Flóahreppur

02.05.2014 - 11:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Hreppurinn varð til í núverandi mynd árið 2006 þegar þrjú sveitarfélög sameinuðust; Gaulverjabæjarhreppur, Hraungerðishreppur og Villingaholtshreppur. Sveitarstjóri er Margrét Sigurðardóttir en hún hefur gegnt því starfi frá árinu 2006. Hún var áður sveitarstjóri í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Framboðsmál

Tveir listar buðu fram í Flóahreppi í kosningunum 2010. R-listi, Ráðdeild, raunsæi og réttsýni vann öruggan sigur og hlaut fjóra fulltrúa í sveitarstjórn, en T-listi, Tákn um traust, hlaut einn fulltrúa.

T-listin býður aftur fram í vor, og leiðir Svanhvít Hermannsdóttir þann lista áfram rétt eins og á þessu kjörtímabili. Í stað R-listans er kominn nýr listi, Flóalistinn sem er með bókstafinn F. Þann lista leiðir Árni Eiríksson, sem var áður fulltrúi R-listans. Tildrög þess að nýr listi var settur saman voru þau, að sögn Árna, að allir fulltrúar R-listans hugðist í haust hætta í sveitarstjórn og hleypa nýju fólki að. Þá hafi vaknað upp hópur sem vildi bjóða fram en ekki spyrða sig við R-listann. Hann hafi svo fengið Árna í hópinn. Hins vegar er Elín Höskuldsdóttir, sem var í þriðja sæti á R-listanum, gengin til liðs við T-listann og er í öðru sæti á þeim lista. 

Helstu mál

Miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar við leikskólann Krakkaborg, bæði endurbætur á eldra húsnæði og viðbygging. Myglusveppur kom upp í húsnæði skólans síðastliðið haust og eftir það hefur verið unnið að því að hreinsa hann út. Talsverð umræða hefur verið um staðsetningu leikskólans en nú stendur til að endurbæta og byggja við leikskólann í Þingborg. Hönnun er langt komin og skipulagsvinnu er lokið. Nú er aðeins beðið eftir afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Verið er að bjóða út framkvæmdir bæði við viðbyggingu (250 fm) og endurbætur á eldra húsnæði. Eftir það verður hægt að fara af stað með framkvæmdir og verður það eitt af stóru verkefnum næsta kjörtímabils.

Á þessu kjörtímabili hafa verið viðamiklar framkvæmdir við kaldavatnslögn í bænum. Flóahreppur fær vatn úr hlíðum Ingólfsfjalls og er í samstarfi við Árborg um vatnsveitu. Á þurrkatímabilum hefur stundum borið á vatnsskorti, einkum á sumrin, og er framkvæmdunum ætlað að bæta úr því. Lagðar voru lagnir meðfram Flóavegi, yfir hjá Neistastöðum, Hurðarbaki og Dalsmynni í vatnstank sem þar er. Samhliða þessu voru settar upp dælur og dæluhús á tveimur stöðum ásamt fleiri framkvæmdum. Þetta voru mjög umfangsmiklar framkvæmdir sem ráðist var í á kjörtímabilinu.

Mikill vilji er til að ljósleiðaravæða sveitarfélagið. Lítil hefur gerst í þeim efnum ennþá en vonast er til að ákvörðun verði tekin um það á næsta kjörtímabili. „Fólk hefur kallað mikið eftir betri nettengingum. Við viljum stuða að því að undangenginni þarfagreiningu,“ segir Árni.

Árni segir að annað stórt verkefni framundan sé að gera eitt heildstætt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið, en nú séu þrjú í gildi fyrir hvern gömlu hreppanna sem sameinuðust í Flóahrepp fyrir átta árum. „Þetta gæti tekið tíma og vakið upp væringar út af fyrirhugaðri virkjun í Urriðafossi, sem var eitt stærsta mál síðustu kosninga.“

Að sögn Svanhvítar Hermannsdóttur oddvita T-listans er það eitt af áhersluatriðum T-listans að athuga möguleika þess að leggja ljósleiðara um sveitina, einnig að bæta upplýsingaflæði og opna stjórnsýsluna svo og að klára heildstætt aðalskipulag fyrir gömlu hreppana þrjá. "Þeir sem standa að T listanum horfa til framtíðar en ætla ekki að dvelja í fortíðinni. Varðandi virkjanamál er staðan þannig að hugsanleg Urriðafossvirkjun er inni á aðalskipulagi, hún er hins vegar í biðflokki í Rammaáætlun. Meðan svo er telur T listinn ekki ástæðu til að draga fram væringar varðandi það mál."

Margrét segir fjárhagsstöðu sveitarfélagsins þokkalega en samkvæmt ársreikningi síðasta árs skilað sveitarfélagið tæpum 12 milljónum í rekstrarafgang. „Sveitarfélagið skuldar nánast ekkert, en samkvæmt ársreikningnum er skuldahlutfallið 29%. Við eigum líka ágætis sjóð sem hefur nýst til framkvæmda. Það er reyndar ekki mikið í rekstrarafgang en reksturinn dugar fyrir útgjöldum.“

Sameining

Lítið hefur verið rætt um sameiningar við önnur sveitarfélög fyrr en nú í vetur. Til stendur að gera skoðanakönnun meðal sveitarfélaga í Árnessýslu og tekur Flóahreppur þátt í því. „Það að fá málefni fatlaðra til okkar breytir stöðunni. Samvinna í þeim efnum hefur reyndar gengið vel en það eru tvær sýslur saman með þennan málaflokk. En það þarf að vinna þetta í samvinnu við önnur sveitarfélög og það gæti kallað á sameiningu,“ segir Margrét.