Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Fljótsdalur ekki eins ríkur og menn halda

08.08.2014 - 12:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Oddviti Fljótsdalshrepps telur að Fljótsdælingar muni aldrei samþykkja sameiningu við Fljótsdalshérað nema áhrif jaðarbyggða í sveitarfélaginu verði aukin. Tekjur hreppsins af Kárahnjúkavirkjun gefi ekki rétta mynd, enda þurfi hreppurinn að kosta dýra þjónustu án framlags úr jöfnunarsjóði.

Sameining til að dreifa tekjum

Í ljósi skuldastöðu Fljótsdalshéraðs hefur talsvert verið rætt um möguleikann á sameiningu við Fljótsdalshrepp sem stendur vel fjárhagslega. Í fyrra fékk fámennur hreppurinn rúmar 105 milljónir í fasteignagjöld mest vegna stöðvarhúss Kárahnjúkavirkjunar.

Tekjurnar ekki allar til að leika sér með

Gunnþórunn Ingólfsdóttir, oddviti í Fljótsdal, segir að hugsanlega sjái fólk ofsjónum yfir þessum tekjum hreppsins. Hún bendir á að hann fái ekkert útsvar frá föstum starfsmönnum Fljótsdalsstöðvar enda eigi þeir allir lögheimili annarsstaðar. Vegna mikilla fasteignatekna hafi hreppurinn misst allt framlag úr jöfnunarsjóði þegar reglum hans var breytt. Þrátt fyrir það taki hreppurinn þátt í að reka Hallormsstaðarskóla sem er dýr eining. Hreppurinn borgar helming kostnaðar á móti Fljótsdalshéraði. Stór hluti tekna fari í nauðsynlega þjónustu. „Það er langt í frá að þetta sé umframfé nema þá bara í einhverjum mæli,“ segir Gunnþórunn.

Horfa ekki á naflann á sér

Fljótsdalshreppur hefur nýtt tekjur sínar meðal annars til að leggja ljósleiðara í sveitina, bæta vegasamgöngur og fegra umhverfið. Þá hefur hreppurinn aukið atvinnumöguleika í ferðaþjónustu meðal annars með því að byggja hótel og náttúrulaug í Laugarfelli.  Hreppurinn er í samstarfi við Fljótsdalshérað um ýmsa þjónustu og hefur tekið þátt í mörgum verkefnum þar svo sem kyndistöð á Hallormsstað, Barra skógræktarstöð, reiðhöll á Iðavöllum og sláturfélagi Austurlands. „ ...og fleira og fleira. Þetta er auðvita bara metið og vegið hverju sinni hvað gagnist heildinni sem best og menn horfa ekkert á naflann á sér í því samhengi.“

Stærri sveitarfélög megi fá en ekki minni

Hún segir að umræðan komi sér ekki á óvart. Hún sé líka í gangi annars staðar á landinu. „Til dæmis í Ásahreppi á Suðurlandi þar sem þessar aðstæður eru. Það er ekkert talað um að Landsvirkjunarhús sé í Reykjavík, 7 hæðir, en ef virkjunarhús er í Ásahreppi þá taka menn eftir því,“ segir Gunnþórunn.

Hræddir um að týnast

Hvað sameiningu við Fljótsdalshérað varðar segist Gunnþórunn ekki geta tjáð sig fyrir hönd allra Fljótsdælinga. En reynslan af sameinungu minni hreppa við þéttbýlið á Egilsstöðum sýni að þeir týnist og verði afgangsstærð. „Og ég held að þetta hljóti að vera lítt aðlaðandi umhverfi þegar búar í dreifbýlissveitarfélagi á borð við Fljótsdalshrepp horfa í kringum sig.  En þetta mætti auðvita gera með því að vinna markvisst að því að efla áhrif út í dreifbýlið,“ segir Gunnþórunn.

Tekjurnar myndu skipta máli en ekki sköpum

Fljótsdalshérað skuldar tæpa 8 milljarða en forsvarsmenn þess fullyrða að það ráði í dag við afborganir enda hafi reksturinn verið lagaður að skuldunum. Á Fljótadalshéraði búa næstum 3500 manns en í nágrannasveitarfélaginu Fljótsdalshreppi voru íbúar 68 talsins um áramót. Það tekur hálftíma að aka frá Egilsstöðum inn í Fljótsdal. Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs, hefur sagt að vilji sé til þess á Fljótsdalshéraði að sameinast Fljótsdalshreppi en sá vilji hefur ekki verið gagnkvæmur. Hann hefur líka sagt að virkjunartekjur Fljótsdalshrepps myndu ekki skipta sköpum í rekstri sameinaðs sveitarfélags.

Möguleg átök um Hallormsstaðarskóla

Gunnar er oddviti Á-listans í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs sem er í meirihluta með Héraðlistanum og Sjálfstæðismönnum. Sjálfstæðismenn sögu fyrir kosningar að loka þyrfti Hallormsstaðarskóla vegna erfiðrar fjárhagsstöðu Fljótsdalshéraðs sem greiðir helming kostnaðar samkvæmt samningi við Fljótsdalshrepp. Í Hallormsstaðarskóla hefur nemendum fækkað ört og mun vinnuhópur meta framtíð skólans.

Gunnþórunn segir að fáir sveitastjórnarmenn og nefndarmenn á Fljótsdalshéraði búi í jaðarbyggðum sveitarfélagsins. Flestir séu innan fimm kílómetra radíuss frá Egilsstöðum. „Það er dálítið lengra en það upp í Fljótsdal. Við gætum ekki gert ráð fyrir miklum áhrifum þessa litla sveitarfélags innan þess stóra. En svo veit maður aldrei, kannski einhvern góðan veðurdag verður þetta. En hvort það verður Fljótsdalshérað og Fljótsdalshreppur eða Austurland allt?“ spyr Gunnþórunn.