Fljótari að panta poka af dópi heldur en pizzu

Mynd með færslu
 Mynd: RUV

Fljótari að panta poka af dópi heldur en pizzu

02.10.2018 - 08:01
Lyfjamisnotkun hér á landi er mun algengari en margir gera sér grein fyrir. Forvarnarmyndbönd á vegum baráttunnar #égábaraeittlíf verða birt á hverjum sunnudegi næstu átta vikurnar til að vekja athygli á umfangi misnotkunar lyfja hér á landi, sérstaklega meðal ungmenna.

Söguna af Einari Darra ættu flestir að hafa heyrt en þann 25.maí síðastliðinn var hann bráðkvaddur á heimili sínu vegna lyfjaeitrunar. Fjölskylda og vinir hans hafa stofnað minningarsjóð í nafni hans sem ætlaður er fyrir ungmenni í fíknivanda.

Eitt megin markmið sjóðsins er að einblína á forvarnir og varpa ljósi á þann allsherjar vanda sem misnotkun á lyfjum er hér á landi, sérstaklega meðal ungmenna. Það virðist vera svo að almenningur geri sér ekki grein fyrir því hversu skaðleg, ávanabindandi og lífshættuleg þessi lyf eru og hversu algeng misnotkun þeirra er hér á landi.

Nú hefur baráttan #égábaraeittlíf birt fræðslu- og forvarnarmyndbönd og munu halda áfram að gera það næstu átta vikurnar. Í myndböndunum er rætt við lækna, hjúkrunafræðinga, lögreglu- og sjúkraflutningamenn en einnig er rætt við ungt fólk sem hefur orðið vart við misnotkun lyfja.

Unga fólkið sem rætt er við segja það ótrúlega auðvelt að nálgast eiturlyf hér á landi, svo mikið fari fyrir þeim. „Þú ert fljótari að panta þér poka af dópi heldur en pizzu,“ segir Kristján E. Björgvinsson, 19 ára, meðal annars um ástandið í dag.

Myndböndin má sjá í spilurunum hér fyrir ofan og á YouTube síðu minningarsjóðsins.