Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Flétta, áferð og þræðir í allar áttir

Mynd:  / 

Flétta, áferð og þræðir í allar áttir

23.11.2017 - 12:15

Höfundar

„Þessi bók er miklu stærri heldur en blaðsíðufjöldinn segir til um,“ segir Sunna Dís Másdóttir gagnrýnandi Kiljunnar um nýjustu bók Kristínar Eiríksdóttur Elín, ýmislegt. Gagnrýnandinn Haukur Ingvarsson er á sama máli og segir að bókin eigi einnig þræði að rekja inn í stærra höfundarverk, í fyrri verk Kristínar í bæði ritlist og myndlist.

„Fléttan kallast mikið á við þetta blóm sem Elín, sem er titilpersónan, finnur þarna í upphafi. Hún heitir tillandsía og er ekkert nema þræðir svona í allar áttir,“ segir Sunna Dís.  „Mér finnst það ganga svolítið í gegnum bókina, sem eru þessir þræðir sem fara svona hingað og þangað.“

Þrír kassar

Aðalpersónan hefur lengi starfað sem leikmyndahönnuður og leikgervahönnuður, fyrir kvikmyndir og leiksvið, og helgar líf sitt vinnunni. „Svo fær maður, þegar líður á, ýmsar skýringar á því að hún sé ekki í mjög gefandi fjölskyldulífi, og kemur frá svolítið brotnu heimili og á erfiða baksögu.“ Sunna Dís segir að sagan komi upp á yfirborðið þegar Elínu berast þrír kassar sem hún skildi eftir í húsi ömmu sinnar fyrir mörgum árum. „Einn þeirra merktur Elín, ýmislegt, og þaðan kemur titillinn,“ segir Sunna. „Svo kallast þetta á við sögu Ellenar, hinnar konunnar, þessarar ungu konu í bókinni sem að Elín kynnist í verkefni.“

Mjög sérstakur rithöfundur

„Ég var beðinn að endursegja efni þessarar sögu og þó að ég myndi gera það mjög samviskusamlega þá held ég að það myndi einhvernveginn ekki fanga galdur þessarar bókar,“ segir Haukur. „Kristín er mjög sérstakur rithöfundur og hún er myndlistarkona líka. Hún er búin að vinna í leikhúsi síðustu árin.“ Síðasta bók Kristínar hét Hvítfeld og Haukur segir að sú bók sé ennþá að spyrjast út. „Maður heyrir að fólk er ennþá að lesa og uppgötva hana. Bækur Kristínar eru þannig að ég hef yfirleitt lesið þær oftar en einu sinni og mig er strax farið að langa til að lesa þessa bók aftur,“ segir hann.

Haukur segir að Kristín vinni mikið með áferð og liti en hún „fokki“ einnig í lesandanum. „Sundum er maður svolítið efins um það hvort að maður eigi að hleypa henni inn í hausinn á manni vegna þess að hún snýr stundum hlutum á hvolf, hún gerir það í þessari bók. Framvindan í þessari bók orkar þannig á mig að þegar ég leit upp úr bókinni þá fannst mér bara eins og ég sæi ekki umhverfið alveg réttum augum,“ segir Haukur.

„Svolítið eins og að lesa ljóð líka“

Sunna Dís tekur undir það. „Hún er að vinna með það líka hjá persónunum, hvernig öll skynjun brenglast eða beyglast hjá þeim líka; hún gerir það ósjálfrátt við lesturinn.“ Hún segir að hægt sé að byrja á bókinni aftur og aftur, og þannig sé hægt að leyfa þráðum sögunnar að fléttast saman á nýjan hátt. „Þó að hún sé prósi, þá er þetta svolítið eins og að lesa ljóð líka. Af þvi að maður kemur einhvernveginn inn í verkið aftur og aftur, á nýjan og nýjan hátt.“

Spennandi höfundarverk

Haukur segir Kristínu vera sinn uppáhalds höfund undir fertugu. „Það er bara þannig. Ég segi það bara: Kristín Eiríksdóttir er bara minn uppáhalds rithöfundur af þessari kynslóð.“ Hann bætir því við að höfundarverkið sé sérstaklega spennandi: „Hvernig þræðirnir tengjast líka inn í aðrar bækur, inn í ljóðin hennar, inn í smásögurnar, inn í leikhúsið, inn í myndlistina.“

„Þessi bók sem slík er mjög spennandi út af fyrir sig, og mér finnst mjög spennandi að skoða hana, líka út frá því sem Kristín hefur verið að gera og hvað hún á eftir að gera.“