Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Flestir sveitarstjórar ætla að sitja áfram

Mynd með færslu
 Mynd: Jesús Rodríguez Fernández - Flicrk
Ekki er útlit fyrir mörg sveitarstjóraskipti í sveitarfélögum á Norðurlandi eftir nýliðnar sveitarstjórnarkosningar. Flestir ætla sér að halda áfram, en sumir segja að bæjarstjórastóllinn á Akureyri freisti. Auglýst verður eftir nýjum sveitarstjóra í Skagafirði en meirihlutinn á Akureyri ætlar að ráða bæjarstjóra.

Ráða nýjan bæjarstjóra á Akureyri

Nýr meirihluti Framsóknarflokks, L-lista og Samfylkingar á Akureyri ætlar að ráða bæjarstjóra, eftir að Eiríkur Björn Björgvinsson lætur af störfum. Ekki er útlit fyrir margar fleiri breytingar á sveitarstjórastöðum í sveitarfélögum á Norðurlandi, en flestir gera ráð fyrir að halda áfram á komandi kjörtímabili, þó að ekki hafi verið gengið formlega frá samningum. 

„Orðið gott hjá mér í bili”

Einhverjir ætla þó að hætta, meðal annars Ásta Björk Pálmadóttir, sveitarstjóri í Sveitarfélaginu Skagafirði. Hún ætlar ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi setu og mun ný sveitarstjórn auglýsa eftir sveitarstjóra á næstunni. 
„Nú er bara að klára það sem er eftir hér. Þetta er orðið gott hjá mér í bili,” segir Ásta, sem hefur verið sveitarstjóri í átta ár. Hún segir bæjarstjórastólinn á Akureyri ekki koma til greina hjá sér. 

Bjarni Th Bjarnason hættir sem sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar og tekur Katrín Sigurjónsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins, við keflinu. 

Eiga bara eftir að skrifa undir

Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri í Hörgársveit, segir mjög líklegt að hann sitji áfram. „Við erum búin að tala saman, en höfum samt ekki skrifað undir neitt,” segir hann. „Það er aldrei neitt öruggt fyrr en hefur verið skrifað undir, en mér finnst mjög líklegt að ég verði áfram.” Spurður um bæjarstjórastól á Akureyri svarar Snorri að það væri í það minnsta mjög óvænt breyting. „Það held ég ekki. Ég hef í það minnsta ekki hugsað þetta þannig.”

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, ætlar að sitja áfram. „Meirihlutinn vill ganga til samninga við mig áfram og hefur gefið það út,” segir hún. „Við erum ekki búin að funda en það verður tekið fyrir á næsta fundi og ég ætla að starfa með þeim áfram.” Dagbjört hefur verið sveitarstjóri síðan 2012. 

Það sama segir Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps. „Það er búið að biðja mig um að vera áfram og ég reikna með að verða við því,” segir hann. 

Kristján Þór Magnússon verður áfram sveitarstjóri Norðurþings og Gunnar Birgisson verður áfram í Fjallabyggð. 

„Hefur verið nefnt við mig”

Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðarhrepps, tekur í sama streng. „Það er búið að bjóða mér að vera áfram og mér finnst líklegt að ég þiggi það,” segir hann. „Það er í það minnsta vilji til þess, en þetta kemur allt í ljós.” Spurður hvort til greina kæmi að sækjast eftir bæjarstjórastóli á Akureyri segist Þorsteinn ekki vera búinn að hugsa svo langt og hafi ekki leitt hugann að því. 

Eiríkur Hauksson, sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps, segir sína setu verða endanlega ákveðna á fundi sveitarstjórnar, sem enn hefur ekki orðið. „Ég er búinn að fá tilboð en það er ekki hægt að ganga frá neinu fyrr en á formlegum fundi,” segir hann. Spurður um bæjarstjórastólinn á Akureyri segir hann: „Það kitlar auðvitað og hefur verið nefnt við mig. Hugsa ekki allir sveitarstjórar um að færa sig í stærra sveitarfélag? En hugurinn er vissulega á Svalbarðsströnd.” 

Ekki náðist í Ólaf Rúnar Ólafsson, sveitarstjóra í Eyjafjarðarsveit, við vinnslu fréttarinnar.