Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Flestir sem fluttu til Noregs komnir aftur

30.01.2017 - 10:00
Mynd með færslu
 Mynd: Kári Gylfason - RÚV
Stærstu hluti þeirra iðnaðarmanna sem flutti til Noregs þegar byggingariðnaðurinn hér á landi dróst verulega saman eftir hrun, hefur snúið til baka. Þetta segir Árni Jóhannsson forstöðumaður bygginga- og mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins.

Árni var gestur Morgunvaktarinnar á Rás eitt í morgun ásamt Gylfa Gíslasyni framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Jáverks í tilefni af Útboðsþingi sem var haldið á föstudaginn. Þar kom fram að gert er ráð fyrir að framkvæmd verið fyrir 90 milljarða á þessu ári. Það er svipað og árið 2016, en þá jukust framkvæmdir töluvert frá árinu áður. Árni segir að árin 2010-12 hafi verið framkvæmt fyrir um 40 milljarða. „Byggingariðnaðurinn er að byggjast upp hægt og rólega en hann er alls ekki komi í þau sumsvif sem voru á árinu 2006-2008,“ segir Árni.

Þegar hrunið átti sér stað og fjölmargir í byggingariðnaðinum misstu vinnuna fór fjöldi iðnaðarmanna að vinna í Noregi. Árni heldur að þetta fólk hafi að stærstum hluta skilað sér aftur til baka. „Auðvitað eru alltaf einhverjir sem ílengjast þar sem þeir eru með börn í skóla og svo framvegis, en ég held að gengisfall norsku krónunnar hafi ýtt við fólki að koma heim.“ Árni bætti við að hlutfall erlendra starfsmanna í byggingafyrirtækjunum sé svipað nú og fyrir hrun.

Árni nefndi einnig að sveiflurnar í byggingariðnaðinum væru of miklar, og þá færu mikil verðmæti forgörðum. Það þurfi að undirbúa hvað taki við þegar þessari uppsveiflu lýkur. Þegar það gerðist ætti hið opinbera að fjárfesta í innviðum. „Opinberir aðilar hafa verið að undirbúa fjárfestingar í niðursveiflu, þannig að þeir eru að bæta í á sama tíma og einkaaðilar hafa verið að framkvæma, þegar það ætti að vera öfugt.“ Árni bætti reyndar við að hann teldi að þenslan sem nú væri sé ofmetin. Byggingariðnaðurinn væri ekki einu sinni í meðalumsvifum núna, jafnvel þó að þensluárin 2006-2008 væru dregin frá.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV