Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Flestir laxar úr Ytri Rangá

02.01.2015 - 15:04
Mynd með færslu
Rangárþing ytra. Mynd úr safni. Mynd: Samúel Örn Erlingsson - RÚV
Rúmlega 8800 laxar komu á land á þessu ári úr Ytri Rangá og við vesturbakka Hólsár. Næstflestir fiskar komu á land í Miðfjarðará, alls 6028. Flestir fiskar á hverja stöng komu úr Laxá á Ásum í sumar, tæplega 900. Árið 2015 gæti orðið annað mesta laxveiðiár á Íslandi.

Veiði var hætt í síðustu ánum 20. október og endanleg veiðitala ársins ekki fengin. Litlu munar á öðru til fjórða sæti í samanburði bestu laxveiðiáranna. Í ár og árin 2009 og 2010 veiddust á milli 74 og 75 þúsund laxar.  Árið 2010 veiddust rúmlega 84 þúsund laxar. Laxveiðiárið í fyrra var með lakasta móti. „Sveiflan upp á við nú kemur okkur á óvart. Venjulega fylgjast góðu árin að og þau slæmu. Þessi þróun er mjög ánægjuleg“, segir Guðni Guðbergsson fiskifræðingur og sviðsstjóri Auðlindasviðs Veiðimálastofnunar.

Veiði margfaldaðist í sumum ám

Þrjár ár skera sig úr í magni, Blanda með tæplega 5 þúsund laxa, Miðfjarðará með rúmlega 6 þúsund og Ytri Rangá með tæplega 9 þúsund. Metár er í báðum þeim fyrrnefndu og veiðin í Miðfjarðará Íslandsmet í veiði í sjálfbærri á. Í Ytri Rangá er byggt á sleppingu gönguseiða.

Veiði í Miðfjarðará nær fjórfaldaðist frá í fyrra og um það bil þrefaldaðist í hinum tveimur. Mest jókst veiði frá í fyrra í Laxá í Dölum. Þar veiddust tæplega 16 hundruð laxar, meira en sjöfalt fleiri en í fyrra. Mikil veiði var í mörgum ám, í Norðurá í Borgarfirði nær 2.900, í Eystri Rangá um 2.750, í Langá á Mýrum um 2.600 og í Þverá og Kjarrá tæplega 2.400.

Í Laxá á Ásum veiddust tæplega 900 laxar á hvora stöng, eða alls alls 1.800 laxar. Í Miðfjarðará veiddust um 600 fiskar á hverja af 10 stöngum, í Ytri Rangá 440 á hverja af 20 stöngum og í Blöndu nær 350 á hverja af 14 stöngum.

Hafbeitarár og sjálfbærar ár

Þegar veiði er skoðuð er gerður greinarmunur á svonefndum hafbeitarám og sjálfbærum ám. Í hafbeitaránum eru ekki góð skilyrði í seiðabúskap, seiði eru alin í í eldisstöðvum og síðan sleppt sem gönguseiðum. Slíkar ár eru til dæmis Rangárnar, Þverá í Fljótshlíð, Skógá og Affall á Suðurlandi.

Guðni Guðbergsson fiskifræðingur hjá Veiðimálastofnun segir að sleppingum sé að mestu hætt í sjálfbærum ám. Veiði í Miðfjarðará, Blöndu og fleiri sjálfbærum ám þykir því mjög athyglisverð í ár. Veiðimet var sett í mörgum ám. Í samanburði sjálfbærra áa og þeirra þar sem byggt er á seiðasleppingum sé einnig vert að muna að í sjálfbærum ám sé flestum fiskum sleppt og fiskar geti veiðst oftar en einu sinni. Hins vegar séu flestir fiskar úr hafbeitaránum teknir.

Veiðitölur ársins í einstökum ám í ár og í fyrra má sjá á vef Landssambands veiðifélaga.

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV