Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Flestir læknar mótfallnir líknardauða

30.01.2015 - 18:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Afar skiptar skoðanir eru um hvort leyfa eigi líknardráp á Íslandi. Jón G. Snædal, öldrunarlæknir, segir óvissuna stærsta vandamálið. Vafamál yrðu óumflýjanleg. Guðjón Sigurðsson, formaður MND-félagsins segir líknardauða uppgjöf gagnvart ónýtu stuðningskerfi.

Þórlaug Ágústsdóttir, krabbameinssjúklingur, er hlynnt því að líknardauði verði leyfður en segir málið vandmeðfarið. Stundum finni dauðvona fólk beinlínis fyrir þrýstingi frá aðstandendum sem vilji halda áfram með líf sitt. 

Ekki orðið vör við eftirspurn

Umræðan um líknardauða er skammt á veg komin hérlendis. Afstaða Íslendinga til þess hvort leyfa eigi líknardauða hefur ekki verið könnuð í 14 ár. Könnun sem Price Waterhouse Coopers gerði árið 2001 leiddi í ljós að 46% landsmanna voru fylgjandi því að lögum um líknardauða yrði breytt en 33% voru andvíg. Flestir þeir heilbrigðisstarfsmenn sem Spegillinn hefur rætt við hafa ekki orðið varir við eftirspurn eftir slíku úrræði í sínu starfi. Arndís Jónsdóttir, sérfræðingur í líknandi hjúkrun er ein þeirra. Alma Birgisdóttir, hjúkrunarforstjóri á Hrafnistu, tekur undir með henni og segir að á þrjátíu ára ferli hafi hún aldrei heyrt af því að skjólstæðingur óski eftir því að heilbrigðisstarfsmaður endi líf hans. Hún telur líklegra að eftirspurn sé meðal yngra fólks sem haldið er ólæknandi sjúkdómum. Ragnheiður Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk með krabbamein, segir umræðuna þó ekki hafa komið upp hjá þeim. Þeirra baráttumál sé að láta fólki líða sem best og áhersla sé lögð á líknarmeðferð þeirra sem séu deyjandi. 

Uppgjöf gagnvart ónýtu stuðningskerfi

Guðjón Sigurðsson, formaður MND- félagsins, tekur afstöðu gegn beinum líknardauða, þar sem heilbrigðisstarfsmaður deyðir einhvern sem þess óskar, og gegn því að fólk fái aðstoð við að binda enda á eigið líf. Óbeinn líknardauði, það er þegar fólk afþakkar meðferð og flýtir þannig dauðastundinni, er leyfilegur hér á landi og Guðjón gerir engar athugasemdir við það. Hitt tvennt sé ákveðin uppgjöf gagnvart ónýtu stuðningskerfi. Fólk horfi fram á sjúkleika og bjargarleysi og treysti ekki á að kerfið sjái um það heldur leggist öll byrðin á þess nánustu. 

Upplifa þrýsting frá aðstandendum

Sumir telja það þó mannréttindi að fá að ákvarða hvenær þeir deyi, Þórlaug Ágústsdóttir, krabbameinssjúklingur sem Spegillinn ræddi við í gær, er ein þeirra. Þórlaug setti þó vissa fyrirvara og benti á að lagaramminn yrði að vera mjög skýr og ferlið vandað þannig að það yrði ekki misnotað. Hún segir að sjúklingar geti upplifað þrýsting frá aðstandendum.

Húsfyllir á málþingi

Siðmennt stóð í gær fyrir málþingi um líknardauða og siðferðileg álitamál tengd honum. Það var húsfyllir og miklar umræður sköpuðust. Sigurður Hólm Gunnarsson, stjórnarmaður í Siðmennt, segir meirihluta fundargesta hafa óskað þess að málið yrði tekið fyrir á Alþingi. 
Siðferðislega hliðin á þessu máli er mjög flókin og sama máli gegnir um faglegar, lagalegar, trúarlegar hliðar. Siðferðisleg rök fyrir líknardrápi og aðstoð við sjálfsvíg eru ýmist mannúðarrök, það sé sjúklingnum fyrir bestu að fá að deyja fyrr, eða sjálfstæðisrök, sem fela í sér að sjúklingur eigi rétt á að ráða yfir eigin lífi og dauða, að vera styttur aldur eða fá aðstoð við sjálfsvíg óski hann þess. Sigurður segir marga óttast að lögin yrðu misnotuð. Hann telur ákjósanlegra að lögleiða hér beinan líknardauða frekar en aðstoð við sjálfsvíg. 

Verða að benda á önnur úrræði

Samkvæmt íslenskum læknalögum mega læknar skorast undan því að framkvæma aðgerðir sem stríða gegn siðferðiskennd þeirra eða trú. Sigurður bendir á að læknir verði þó samkvæmt siðareglum þeirra að benda sjúklingi á önnur úrræði. Sumir hafa bent á að í litlu landi yrði erfitt að vera þekktur sem læknirinn sem deyðir sjúklinga. Sigurður segir að sennilega hafi margir sagt það sama um þá sem framkvæmdu fóstureyðingar, þegar þær voru leyfðar hér á landi árið 1935. 

Óvissan of mikil

Jón G. Snædal, öldrunarlæknir og fyrrum formaður siðaráðs lækna segir lækna almennt ekki vilja stíga þetta skref og að siðfræðiráð norrænu læknafélaganna hafi í gegnum tíðina tekið afstöðu gegn líknardauða. Læknirinn, sem hefur það hlutverk að annast líf og heilbrigði fólks, yrði settur í mjög sérkennilegt hlutverk, ef hann ætti að taka líf. Hann sagði óvissuna helstu rökin gegn því að leyfa líknardauða. Í læknisfræðinni sé alltaf óvissa, tengd greiningum og meðferð. Ef líknardauði yrði lögleiddur gætu því komið upp vafasöm tilvik. Þá segir hann að oft ríki óvissa um hæfni hins veika til að láta í ljós vilja sinn. Jafnvel þó farið yrði í gegnum mikið ráðgjafar og matsferli yrði aldrei hægt að tryggja alveg að þunglyndi eða annað ástand sem hægt er að meðhöndla hafi ráðið vali hans. Þá sagði Jón ljóst að fólk geti alltaf skipt um skoðun, einmitt þess vegna hafi fólk sem nýtir sér þjónustu svissneskra samtaka heilan sólarhring til að ákveða hvort það drekki lyfið sem dregur það til dauða. Það yrði auðvitað mjög þungbært ef læknir væri búinn að sprauta dauðalyfi í sjúkling og hann skipti síðan um skoðun, þar sem í mörgum tilfellum væri slík aðgerð óafturkræf.

Áhersla á líknandi meðferð gæti veikst

Loks óttast Jón að sú mikla áhersla sem lögð hefur verið á að þróa og bæta líknandi meðferð gæti orðið veikari, verði aðrar leiðir lögleiddar. Hérlendis hefur skortur á sálfræðiaðstoð við þá sem eru deyjandi verið gagnrýndur. Jón segir að sennilega sé full ástæða til. Tilhneigingin hér á landi hafi verið að skera fituna utan af heilbrigðisþjónustunni og margir telji sálfræðiaðstoð til heyra fitunni. 

Ekki rætt á Alþingi

Enginn þingflokkur hefur mótað sér skýra afstöðu til þess hvort breyta skuli lögum um líknardauða eða ekki og enginn þeirra hyggst taka málið fyrir á næstunni. Málið hefur ekki verið rætt innan Sjálfstæðisflokksins og er ekki á dagskrá. Vinstri grænir hafa ekki rætt málið en hyggjast reyna að setja það á dagskrá þegar tími gefst til. Framsóknarflokkurinn hefur ekki tekið afstöðu til málsins og það sama gildir um Samfylkinguna. Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir þó almennt mikilvægt að ræða þetta mál og þær stóru siðferðisspurningar sem tengist því á faglegan og vandaðan hátt. Píratar ræddu málið í kjölfar fyrirspurnar Spegilsins. Í svari Helga Hrafns Gunnarssonar, þingflokksformanns Pírata, kom fram að þingflokkurinn hefði ekki tekið afstöðu til málefnisins í heild en allir þingmenn flokksins væru þeirrar skoðunar að breyta beri lögum um líknandi meðferð og líknardauða í átt til þess að heimila líknardauða. Áherslur og rök þingmanna séu misjöfn en byggist öll á virðingu og umhyggju fyrir manneskjunni. Þó verði að búa þannig um ferlið að það verði ekki misnotað. Píratar hyggjast ekki eiga frumkvæði að því að taka líknardauða fyrir á næstunni. Helgi bendir þó á að flokkurinn hafi lagt fram þingmál um svokallaða samþykkisskrá þar sem fólk gæti látið í ljós afstöðu sína til líffæragjafar, greftrunar, vísindarannsókna eftir andlát og annars er varðar persónuréttindi. Hugsanlega gæti slík skrá hjálpað til við ákvarðanatöku þegar kemur að líknardauða. Brynhildur Pétursdóttir, varaformaður þingflokks Bjartrar Framtíðar, segir ýmislegt í gildum flokksins styðja að einstaklingnum sé veitt frelsi og ábyrgð til að taka ákvörðun af þessu tagi, að skilyrðum uppfylltum. Þingmönnum flokksins finnist mikilvægt að vera óhræddir við að taka þessa umræðu, svona stórt og umdeilt mál yrði þó aldrei innleitt í lög á Íslandi án víðtækrar umræðu í samfélaginu og sáttar.