Flestir ferðamenn frá Bandaríkjunum

Mynd með færslu
 Mynd: rúv - ruv

Flestir ferðamenn frá Bandaríkjunum

28.02.2016 - 20:08

Höfundar

Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi á síðasta ári. Þetta er í fyrsta sinn í langan tíma sem Bretar eru ekki fjölmennastir ferðamanna. Þá fjölgaði Kínverjum um áttatíu og þrjú prósent milli ára.

Þetta kemur fram í tölum frá Íslandsstofu sem kynntar voru á ráðstefnu stofnunarinnar á dögunum. Undanfarin ár hafa flestir erlendir ferðamenn komið frá Bretlandi - en á síðasta ári varð breyting á. Bandaríkjamenn skutust fram úr Bretum - naumlega þó.

Tæplega tvö hundruð fjörutíu og þrjú þúsund Bandaríkjamenn komu hingað til lands, og þeim fjölgaði um tæp sextíu prósent milli ára. Bretar fylgdu fast á eftir - voru aðeins tæplega tvö þúsund færri. Samanlagt komu hátt í fjörutíu prósent erlendra ferðamanna frá þessum tveimur löndum.

Næst á eftir, en þó nokkuð langt á eftir, komu Þjóðverjar, Frakkar, Norðmenn og Danir. En þar á eftir komu Kínverjar, sem voru tæplega fjörutíu og átta þúsund. Þeim fjölgaði um áttatíu og þrjú prósent frá árinu áður.

Fólki hefur þó ekki fjölgað meðal allra þjóða. Norðmönnum fækkaði til að mynda um fjögur prósent milli ára meðal ferðamanna hér á landi, og Rúmenum fækkaði um tæp þrjátíu og níu prósent, sem væntanlega helgast að mestu af efnahagsástandinu þar.

Ef litið er hins vegar eingöngu á heimsóknir ferðamanna utan háannatíma eru Bretar enn þá langfjölmennastir. Tæplega tvö hundruð þúsund manns komu hingað til lands á þeim en tæplega hundrað þrjátíu og sex þúsund Bandaríkjamenn.