„Flesta langar til að vinna“

Mynd með færslu
 Mynd:

„Flesta langar til að vinna“

08.06.2014 - 14:00
Algengt er að öryrkjar eigi ekki peninga fyrir mat síðustu tíu daga mánaðarins. Starfsmaður Hlutverkaseturs segir mikilvægt að fjölga hlutastörfum fyrir öryrkja.

Adda Guðrún Sigurjónsdóttir starfar á Hlutverkasetri í Reykjavík en sjálf er hún 75% öryrki. Hún segist verða vör við mikla neyð og fátækt hjá öryrkjum um þessar mundir. 
„Það er mjög algengt að fólk eigi ekki peninga síðustu tíu daga mánaðarins. Þá er ég að meina að fólk eigi ekki einu sinni fyrir mat. Það er algengara en hitt,“ segir hún. „Svo verð ég líka vör við mikið vonleysi og ofsalega reiði út í stjórnvöld fyrir það að bæturnar séu svona lágar. Fólk sér ekki að það geti komist einhvern veginn út úr þessu.“

Starfsemi Hlutverkaseturs gengur út á hvatningu og stuðning við þá sem einhverra hluta vegna geta ekki stundað nám eða verið í vinnu, hvort sem það er tímabundið eða til lengri tíma. Adda Guðrún segir öryrkja oft veigra sér við að sækja um störf  því þeir treysti sér ekki til uppfylla þær kröfur sem gerðar séu, t.d. um tungumálakunnáttu, þjónustulund eða einfaldlega það standa sig - og veikjast ekki. 

„Alls konar hlutir sem við öryrkjar erum kannski ekki alveg fær um, þegar við erum kannski búin að vera á örorku meira og minna í mörg ár. Vinnuveitendur hafa lítinn skilning á takmörkunum öryrkja.“ 

Adda Guðrún segir minna umburðarlyndi á vinnumarkaði gagnvart öryrkjum með geðsjúkdóma en líkamlegar takmarkanir. Dæmi séu um að fólki sé sagt upp ef það veikist. „Ég hef alveg lent í þessu sjálf og þá dettur maður aftur niður í vonleysi og hugsar: Nei, ég get víst aldrei unnið,“ segir hún.

Þá bendir Adda Guðrún á að lítið framboð sé af hlutastörfum á vinnumarkaði. Hjá Hlutverkasetri sé verið að vinna að lausn á þeim vanda með hjálp Reykjavíkurborgar. „Að ríki og borg taki sig svolíltið saman með það að hluta jafnvel 100% starf niður í einhver þrjú störf.“
Þannig skapist fleiri atvinnutækifæri fyrir öryrkja. „Flest alla, sem ég veit um, langar til að vinna,“ segir Adda Guðrún.